Stóra-Laxá rauf stíflu við Laxárdal fyrr í dag. Brúarsmíðin við ána virðist þó ekki vera í hættu en ákvörðun var tekin fyrr í vikunni um að grafa í sundur veginn við brúarenda núverandi brúar. Sunnlenska greindi fyrst frá.
Stórir klakabunkar liggja nú á víð og dreif á túni sem liggur við Laxárgljúfur. Bóndinn telur tjónið ekki mikið en að erfiðlega muni ganga að hreinsa túnið.
„Laxárgljúfur byrjar á landinu hjá okkur og áin rann aðeins upp á tún. Það er heppilegt að það varð ekki meira. En maður veit náttúrulega ekki hvað gerist í framhaldinu svona upp á tjón að gera,“ segir Ragnheiður Hallgrímsdóttir bóndi á Sólheimum í samtali við mbl.is.
„Ég hugsa að þetta sleppi til. Nokkrir steinar sem þarf að tína af túninu.“