Mikil hætta er á snjóflóðum á Austfjörðum fram eftir degi í dag, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands.
Landshlutinn sker sig úr sökum þess að þar dregur síðast úr hlýindunum sem gengið hafa yfir landið, eftir margra vikna kuldatíð.
Í spá Veðurstofunnar er tekið fram að í kvöld muni kólna og um leið draga úr hættunni. Þó geti áfram leynst veikleikar í snjóalögum á afmörkuðum svæðum, einkum efst í fjöllum.
Snjóflóð féll úr Bjólfsöxl við Seyðisfjörð og yfir veg aðfaranótt fimmtudags. Þá féllu flóð á veginn um Fagradal úr Grænafelli og á veginn um Vattarnesskriður aðfaranótt þriðjudags. Annað féll í Svartafelli við Oddsskarð aðfaranótt mánudags.
Töluverð snjóflóðahætta er sögð á Tröllaskaga utanverðum og í Eyjafirði innanverðum. Á norðanverðum Vestfjörðum og á suðvesturhorni landsins er nokkur hætta sögð vera til staðar.