„Allar þessar mótvægisaðgerðir tókust mjög vel,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is um aðgerðir við Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi til verndar framkvæmdasvæði Ístaks sem vinnur að smíði nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir ána.
Eins og mbl.is greindi frá í gær var vegurinn rofinn til að vernda brúna og dugði sú ráðstöfun þegar áin rauf stíflu upp úr hádegi í dag og ruddist fram í flaumi vatns og mikils klaka sem myndast hefur í ánni í kuldanum undanfarið.
„Þarna kom streymistoppur sem náði hámarki um eittleytið og þær aðgerðir sem við fórum í komu sér vel og komu í veg fyrir að flæddi um framkvæmdasvæðið,“ heldur Óskar áfram. Rof vegarins norðan megin hafi verið lykilaðgerð sem reyndist í dag hafa komið sér vel.
„Þó að það séu umhleypingar núna næstu daga sinna þessar aðgerðir sínu hlutverki en hvað varðar brúarframkvæmdina sjálfa munum við byrja á því að hita upp mótin á mánudaginn og hefjum svo steypuvinnu á þriðjudag þar sem þessi 145 metra langa brú verður steypt í einu lagi,“ segir Óskar. Sú aðgerð taki á annan sólarhring.
„Verktakinn stendur sig vel og þetta vinnst allt mjög vel miðað við þær aðstæður sem eru þarna á vettvangi núna,“ segir forstöðumaðurinn að lokum.