Snjóflóð fallið víða í hlýindunum

Áfram er viðloðandi snjóflóðahætta.
Áfram er viðloðandi snjóflóðahætta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjóflóð féllu víða í hlýindunum sem gengu yfir landið í gær. Á Vestfjörðum féllu mörg flóð en ekkert þeirra var stórt.

Snjóflóð fóru þó á veginn um Raknadalshlíð við Patreksfjörð í gærmorgun og einnig féll flóð á veg sem liggur út í Valþjófsdal í Önundarfirði, síðar um daginn, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Önnur flóð féllu á hefðbundnari stöðum, svo sem Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, Hvilftarströnd í Önundarfirði, Hádegisfjalli og Erni í Syðridal við Bolungarvík, en þau fóru ekki langt.

Stærri flóð á Tröllaskaga

Í Álftafirði á Snæfellsnesi lokuðu vot snjóflóð vegi á þekktum stað, að sögn Veðurstofunnar.

Á Tröllaskaga hafa fallið stærri flóð og er talið að þau hafi farið af stað á veiku lagi sem hefur verið í snjóþekjunni síðastliðnar vikur. Flóðin féllu m.a. í Skíðadal og Ólafsfirði en ekkert þeirra ógnaði byggð.

Áfram er viðloðandi snjóflóðahætta, en mesta hættan líður hjá í bili þegar fer að kólna aftur. Mest er hættan á Austfjörðum, en þar kólnar síðar en í öðrum landshlutum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert