Væri komið svona fram væri ég karl?

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Ekki er hægt að lýsa með orðum sumu því sem ég hef upplifað og ég hef oft hugsað hvort svona væri komið fram við mig væri ég karl,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, fyrsta konan til að gegna embætti biskups Íslands. Hún viðurkennir að hún hafi rekið sig á fleiri veggi fyrir þær sakir en hún hafði búist við. 

Var það aðallega þannig í byrjun eða er þetta svona enn þá?

„Þetta hefur aukist ef eitthvað er. En kannski er það bara vegna þess að ég er betur meðvituð um þetta í dag og tek fyrir vikið betur eftir því.“

Hvernig getum við lagað þetta?

„​Með því að brotna ekki undan þessu sem konur. Kirkjan hefur gegnum aldirnar verið mikill karlaheimur og þegar ég kom í guðfræðideildina á sínum tíma fann ég fyrir undrun. „Ert þú að fara í guðfræði?“ Sjálf hafði ég ekkert velt þessu fyrir mér, langaði bara að feta í fótspor föður míns, sem var dásamlegur maður og birtingarmynd Guðs fyrir framan mig í æsku. En þarna var ég minnt á að ég væri ekki karl, heldur kona,“ svarar Agnes sem var þriðja konan til að vígjast til prests á Íslandi. Nú eru þær fjölmargar.

Umbótabiskup

Þegar Agnes settist í stól biskups hafði hún engar sérstakar vonir eða væntingar til embættisins.

„Mér var bara falið þetta verkefni og ég vildi sinna því eins og ég hef getu og vit til. Ég tel mig vera umbótabiskup. Ég hef til dæmis lagt áherslu á að taka á ofbeldismálum enda eru það mál sem við kærum okkur ekki um innan okkar kirkju. Það hefur ekki alltaf verið vinsælt enda gerir aldrei neinn hundrað prósent rétt í svona málum. Það eru margir sem koma við sögu, ekki bara þolandi og gerandi. En aðalatriðið er að taka fast á þessum málum; við viljum hafa kirkjuna okkar örugga.“

Nánar er rætt við Agnesi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert