„Jú, það er mjög gott að vera komin heim,“ játar Gréta María Valdimarsdóttir, heimildarmaður mbl.is um borð í flugi Icelandair frá Seattle til Keflavíkur, en vegna veðurs þurfti vélin að standa í á tólftu klukkustund á vellinum í Keflavík áður en hægt var að hleypa farþegum frá borði vegna veðurhamsins og voru björgunarsveitarmenn til aðstoðar þegar fólk kom út úr vélinni og fetaði sig niður stigann í rokinu.
„Biðin virtist auðvitað miklu lengri eftir að við fengum að vita að þetta væri að koma, þá leið tíminn einhvern veginn hægar,“ segir Gréta María sem var við fimmta mann að koma úr vinnuferð til Los Angeles svo hópurinn hefur mátt verja drjúgum tíma um borð í flugvélum um helgina, fyrst þriggja tíma flug frá Los Angeles til Seattle, þaðan sjö og hálfur tími til Íslands og svo rúmir ellefu í bið í vélinni.
„Það var rosalega hvasst þegar við komum út en björgunarsveitarmennirnir hjálpuðu til og svo þurftum við ekkert að ná í töskurnar heldur gátum bara farið beint út,“ heldur hún áfram, en farangurinn verður fluttur úr vélinni þegar því verður við komið vegna veðurs.
Hvernig skyldi hópurinn þá hafa það eftir þrekraunina?
„Við vorum bara óvenjulega hress en reyndar mjög svöng svo við fórum öll í pylsur, maður borðaði síðast á miðnætti að íslenskum tíma ef frá eru talin einhver nammistykki og snakkpoki,“ svarar Gréta María.
Hún segir farþega hafa haldið ró sinni þrátt fyrir langa bið um borð.
„Flugfreyjurnar og flugþjónarnir voru æðisleg og eiga miklar þakkir skildar fyrir hve frábær þau voru,“ segir Gréta María að lokum, komin heim í heiðardalinn eftir langt ferðalag frá Borg englanna vestur í Kaliforníu.