Björgunarsveitir hætta störfum í Keflavík

Frá aðgerðunum á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag.
Frá aðgerðunum á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir eru hættar störfum á Keflavíkurflugvelli en þær hafa verið að aðstoða Icelandair við að koma farþegum úr vélum sem komu frá Norður-Ameríku í morgun. Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Að sögn Jóns var það metið sem svo að það væri ekki öruggt að keyra stigabílana upp að vélunum. Sandurinn sem var borinn á stæðin til að hálkuverja hélst ekki heldur fauk í burtu með vindinum. 

Ekki náðist að tæma allar flugvélarnar en Ásdís Ýrr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir enn u.þ.b. 800 farþega fasta um borð í sex vélum. Hún segir erfitt að segja til um hvenær hægt verði að tæma vélarnar en eins og mbl.is hefur greint frá komu fyrstu vélarnar um klukkan sex í morgun. Hafa því einhverjir verið fastir í flugvélunum í níu tíma á vellinum.

Aflýsa flugi til Norður-Ameríku

Ásdís segir áhafnirnar um borð þrautþjálfaðar en þær hafa verið að deila mat og drykk til farþega eftir því sem vistir leyfa.

Þá var tekin ákvörðun um að aflýsa flugferðum til Norður-Ameríku sem voru á áætlun í dag.

Búið var að tilkynna að aflýsa ætti öllum flugferðum til og frá Evrópu en að sögn Ásdísar var tekin ákvörðun um að fara með eina vél til Óslóar og eina til Kaupmannahafnar. Þeir sem áttu bókað í morgun geta því farið í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert