„Ekki fer allt eins og ætlað er. Nú siglum við á varðskipinu Freyju til Akureyrar, ég orðinn lögskráður um borð,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Facebook-síðu sína.
Eins og mbl.is greindi frá í dag var forsetinn um borð varðskipsins Freyju þegar því barst útkall klukkan fjögur í nótt, en togarinn Hrafn Sveinbjörnsson varð aflvana um 50 sjómílur norð-norðvestur af Straumsnesi í nótt.
Freyja var á leið inn á Patreksfjarðarflóa, en fyrirhugað var að skipið yrði hluti af minningarathöfn eftir hádegi í dag vegna krapaflóðsins sem féll á Patreksfjörð fyrir 40 árum síðan. Til stóð að forsetinn tæki þátt í athöfninni.
Í Facebook-færslu sinni þakkar Guðni Friðriki Höskuldssyni skipherra og áhafnar hans fyrir gestrisni og góðvild. Greinir Guðni einnig frá því að hann hafi náð að horfa á sigurleik íslenska karlaliðsins í handbolta gegn Brasilíu með áhöfninni í kvöld.
Þá sendir Guðni áhöfn Hrafns Sveinbjarnarsonar góðar kveðjur.
„Ég sendi áhöfn Hrafns Sveinbjarnarsonar einnig góðar kveðjur. Það er ekkert grín að vera án ljóss og hita úti á ballarhafi, rétt við ísrönd og fjarri landi en reyndar var þar lygnt og líklega var veður hvergi eins gott í íslenskri lögsögu í dag og úti á Hallamiðum. Það var þó lán í óláni,“ skrifar forsetinn.