Hellisheiðin lokuð og Reykjanesbrautin í skoðun

Til skoðunar er að loka Reykjanesbrautinni.
Til skoðunar er að loka Reykjanesbrautinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samgöngutruflanir eru víða um land vegna veðurs en búið er að loka fyrir umferð um Hellisheiði, Þrengsli, Sandskeið, Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði, svo eitthvað sé nefnt.

Óvissustig er á Suðurnesjum á milli klukkan 7 til 18 og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni gæti komið til þess að Reykjanesbrautinni og Grindavíkurvegi verði lokað með stuttum fyrirvara en afar erfið akstursskilyrði eru þar núna, snjóþekja, skafrenningur, og 27 m/s í hviðum. Á milli klukkan 10 og 12 má búast við enn meira hvassviðri og blindu á þessum vegum.

Þá er mikil ófærð á Vestfjörðum og má einnig búast við samgöngutruflunum þar. Fólk er hvatt til að fylgjast með veðurspám og færð á vegum á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi á suðvesturhorni landsins. Þá gaf Veðurstofa Íslands út viðvaranir í morgun fyrir Norður- og Austurland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert