50 ár frá gosi: Eyjarnar hefðu verið rýmdar

Horft til Heimaeyjar. Efsti til hægri: Eldfell og Helgafell.
Horft til Heimaeyjar. Efsti til hægri: Eldfell og Helgafell. mbl.is/Sigurður Bogi

Hefði mælitækni og vísindaleg þekking í jarðfræði verið hin sama árið 1973 og er nú, hefði Heimaey verið rýmd í hið minnsta sólarhring áður en eldgos þar hófst aðfaranótt 23. janúar 1973. Í aðdraganda gossins varð vart jarðskjálfakippa og titrings í jörðu, sem ekki var greint hvers eðlis væru. Nú væri slíkt gerlegt og viðbrögð yrðu samkvæmt því. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann er meðal þeirra 5.000 íbúa í Vestmannaeyjum sem flúðu eldgosið á sínum tíma; fór með móður sinni og systkinum upp á fastalandið með fiskibát og út í algjöra óvissu.

Minnst verður með ýmsu móti í dag að hálf öld er liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey. Atburðir eru allan daginn og í kvöld, eftir blysför frá Landakirkju, er samkoma í Eldheimum með fjölbreyttri dagskrá. Þar flytja ávörp meðal annars forseti Íslands og forsætisráðherra.

„Að búa með eldfjall í bakgarðinum er auðvitað sérstakt, en ég held að við, sem hér búum, hugsum ekki mikið um slíkt. Í dag búum við líka auðvitað við allt annað umhverfi er varðar vöktun og annað tengt náttúruhamförum,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið.

„Ég er sannfærð um að nákvæmlega sömu eiginleikar og tryggðu enduruppbyggingu Vestmannaeyja eftir gosið 1973 munu tryggja áframhaldandi vöxt og viðgang bæjarins. Samkennd, samtakamáttur, bjartsýni, jákvæðni, dugnaður og baráttuvilji verða hér eftir sem hingað til lykillinn að velgengni Vestmannaeyja,“ segir Íris.

16 blaðsíðna sérblað um gosið fylgir Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert