Beðin að klippa á taug Johns Snorra

Kristin Harila á tindi Lhotse í Himalaya-fjöllum, 8.516 metra háum, …
Kristin Harila á tindi Lhotse í Himalaya-fjöllum, 8.516 metra háum, í maí 2021. Flaggaði hún þar norska og samíska fánanum og skrifaði á Facebook að þar með væri þeim samíska flaggað fyrsta sinni í Himalaya-fjöllum. Ljósmynd/Facebook

Norska fjallgöngukonan Kristin Harila reyndi í fyrra við heimsmet þegar hún hugðist klífa fjórtán fjallstinda, alla hærri en 8.000 metra, á innan við sex mánuðum. Litlu munaði að heimsmetið færi í bækurnar en þegar á hólminn var komið vildu kínversk stjórnvöld, í skugga heimsfaraldurs, ekki veita Harila vegabréfsáritun nógu tímanlega til að heimsmetið yrði hennar og stóðu því tveir fjallstindar út af borðinu er upp var staðið.

Harila er þó handhafi annars heimsmets sem er að klífa sex tinda yfir 8.000 metrum á innan við mánuði svo hún má vel við una þrátt fyrir að fjórtán tinda metið hafi ekki gengið að óskum.

Nú stefnir Harila á fjallið K2 sem gnæfir rúma 8.600 metra upp af landamærum Pakistans og Kína og hefur tekist á hendur óvenjulegt verkefni sem snýr að íslenska fjallagarpinum John Snorra Sigurjónssyni heitnum sem fórst á leið niður af fjallinu í febrúar 2021 ásamt tveimur samferðamönnum, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr Prieto. Sajid Ali Sadpara, sonur Muhammads, var með í för, en þurfti frá að hverfa áður en mennirnir fórust. 

Ekki hættulaust að klippa á taugina

Í viðtali við norska vefritið kk.no greinir fjallagarpurinn frá Finnmark frá því að íslensk kona hafi sett sig í samband við hana og beðið hana þess greiða að klippa á taugina sem lík Johns Snorra hangir í.

John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali …
John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali í janúar 2021. Ljósmynd/John Snorri

Kveðst Harila hafa ákveðið að reyna eftir megni að verða við beiðninni en bendir um leið á að tiltækið sé ekki án áhættu, hætta sé á að klifrarar neðar í fjallinu verði fyrir líkinu þegar það losnar úr tauginni og fellur niður fjallshlíðina.

Blaðamaður kk.no skrifar að Harila hafi sýnt mynd af John Snorra í viðtalinu þar sem hann liggi dúðaður hlífðarfatnaði og hvíli friður yfir honum. „Á myndinni sé ég aðra klifrara og það væri kraftaverk ef hún klippti hann niður og líkami hans lenti ekki á öðrum klifrurum,“ skrifar blaðamaður.

„Maður sér látið fólk á nánast öllum tindunum. Það er til áminningar um að þetta er ekki hættulaust. Það er mjög sérstakt,“ segir klifurkonan margreynda sem síðast kleif K2 í fyrrasumar.

Hörgull á styrktaraðilum

Þrátt fyrir að allt annað en auðvelt sé að klífa tinda sem teygja sig marga kílómetra upp til himins berst Harila við aðra áskorun – styrki. Fjallgöngur séu annálað karlasport og við ramman reip að draga fyrir kvenkyns klifrara að ná eyrum styrktaraðila. Hefur hún þegar selt íbúðina sína í Ósló til að fá sinnt ástríðu sinni, fjöllunum háu.

Með þrautseigju og sannfæringarkrafti, að ógleymdum glæsilegum ferli, náði Harila samningum við úraframleiðandann Bremont um að gerast styrktaraðili hennar og var þar um hreinan vendipunkt að ræða. Henni er hjartans mál að vekja athygli á jafnrétti fjallafólks þrátt fyrir að karlmenn hafi verið meira áberandi á þeim vettvangi.

„Í því felast skilaboð til allra stelpna um að fjallgöngur séu fyrir stráka,“ segir stelpan norðurnorska, sem reyndar er þó orðin 36 ára gömul, „þegar ég var að leita mér að styrktaraðilum sá ég að þeir styrkja karla mun frekar en konur,“ heldur hún áfram.

Aðeins sex af fjórtán á toppinn

Bendir hún á að þegar hún kleif Mount Everest árið 2021 hafi allar fimm konurnar sem lögðu upp náð toppnum en aðeins sex af fjórtán karlmönnum. Á leiðinni niður spurði hún leiðsögumann hópsins hvernig hann teldi að á þessu stæði. Sá hafi ekki verið viss en tjáði henni að staðan hefði verið svipuð árið áður.

Harila sjálf kveðst hins vegar fara nærri um skýringuna. Konurnar sem hún fór með hafi verið tilbúnar og vel undirbúnar, andlega sem líkamlega. Margir í karlahópnum hafi hins vegar álitið för á Everest eins og hvern annan sunnudagsgöngutúr, „easy peasy“ eins og Harila orðar það, og því hafi farið sem fór.

Uppfært klukkan 13:25:

Athugasemd ritstjórnar mbl.is: Ekkja Johns Snorra hafði samband við ritstjórn og kannast ekki við að hafa lagt fram þá beiðni sem Harila ræðir í viðtali sínu við kk.no en vefmiðillinn orðar frásögn sína svo: „En islandsk kvinne har tatt kontakt med Kristin Harila (36) før hun skal bestige K2, verdens nest høyeste fjell. Hun har spurt om hun kan klippe av tauet som hennes avdøde mann John er festet til på veien opp til toppen.“ (Leturbreyting er ritstjórnar.) Orðalagi í fréttinni hefur verið breytt til samræmis við þessar upplýsingar.

kk.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka