Fé brann inni í fjárhúsi í Ásahreppi

mbl.is/Eggert

Tuttugu kindum var bjargað þegar eldur kom upp í útihúsasamstæðu á Syðri-Hömrum í Ásahreppi í gær. Ekki tókst að koma öllu fé út en þegar slökkviliðið kom á vettvang hafði eldurinn læst sig í annað fjárhúsið svo ekki þótti ráðlegt að fara þar inn. 

Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri Rangárvallasýslu, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Tilkynning um eldsvoðann barst Brunavörnum Rangárvallasýslu laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Óskað var eftir aðstoð frá brunavörnum Árnessýslu. Um 40 slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu sem stóð yfir til klukkan hálftvö í nótt. Að því búnu tók við vakt lögreglumanna sem fylgdust með glæðum í brunarústunum. 

Að sögn Leifs eru eldsupptök enn óljós.

Mikill eldsmatur

Töluverður eldsmatur var inni í útihúsunum og fór teymi frá slökkviliðinu aftur á vettvang milli klukkan þrjú og fjögur í nótt, og svo aftur í morgun til að fylgjast með aðstæðum.

„Það er skán þarna sem að getur brunnið og kraumar glóð í lengi. Það er líka flór í einu húsinu sem var svolítið glóð í sem við náðum ekkert að komast í í nótt því það var ekkert óhætt að fara inn, við sáum ekki almennilega hvernig húsin voru útlítandi. Við ætluðum að bíða eftir dagsbirtu að fara í það. Svo var eitt hús einangrað með sagi þannig að það var svolítil glóð í því og erfitt að ná því,“ segir Leifur.

Þurftu að reykræsta fjós

Eins og áður sagði brann fé inni í öðru fjárhúsinu en ekki liggur fyrir hversu margar kindur voru þar inni.

„Þegar að við komum á staðinn þá er það fyrsta sem við gerum er að bjarga út úr öðru fjárhúsinu tuttugu kindum en í hinu fjárhúsinu var kominn eldur þannig að við náðum ekki að bjarga því. Við vitum ekki hvað var mikið þar inni.“

Þá lagði mikinn reyk yfir fjós sem stóð nokkur hundruð metrum frá útihúsunum en að sögn Leifs gat slökkviliðið þó ekki hafið reykræstingu þar fyrr en búið var að slökkva mestan eld. 

„Það var eiginlega orðin björgunaraðgerð númer tvö.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert