Rauðagerðismálið fer fyrir Hæstarétt

Angjelin Sterkaj var dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti …
Angjelin Sterkaj var dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti í lok október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæstiréttur hefur veitt áfrýjunarleyfi í Rauðagerðismálinu og mun því taka málið fyrir. Þetta staðfestir Oddgeir Einarsson, verjandi Angj­el­in Sterkaj, sem dæmdur var í 20 ára fangelsi í Landsrétti fyr­ir að hafa orðið Arm­ando Beqirai að bana við heim­ili sitt í Rauðagerði í Reykja­vík í fyrra, en Angjelin játaði sök í málinu.

Hafði Landsréttur þyngt dóm Angjelins, en áður hafði héraðsdómur dæmt hann í 16 ára fangelsi. Einnig hafði Landsréttur snúið við sýknudómi héraðsdóms yfir þeim Sheptim Qerimi, Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho og Murat Selivrada, sem fengu öll 14 ár í Landsrétti. Vísir greindi fyrst frá ákvörðun Hæstaréttar.

Oddgeir segir að fjórmenningarnir hafi allir óskað eftir áfrýjunarleyfi og samkvæmt bréfi sem hann hafi fengið frá réttinum hafi verið fallist á beiðni allra. Áður hafði komið fram að ríkissaksóknari hafi tekið undir beiðni fjórmenningana um að fá niðurstöðu Hæstaréttar.

Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2021.
Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Oddgeir segir stóra málið fyrir sinn umbjóðanda vera hvort heimild hafi verið til þess að dæma hann umfram þau 16 ár sem hann hlaut í héraði. Þá sé líklegt að þremenningarnir muni áfram gera kröfu um sýknu og að héraðsdómurinn standi, en ríkissaksóknari hafði áður sagt rétt að fá niðurstöðu Hæstaréttar um það atriði.

Öll fjögur sitja nú í fangelsi, en Angjelin hefur setið inni frá því að hann var handtekinn eftir að málið kom upp. Þremenningarnir fóru hins vegar inn eftir niðurstöðu Landsréttar í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert