Skyldu Rússarnir vera komnir?

Kristín Jóhannsdóttir við störf í Eldheimum í dag, hálfri öld …
Kristín Jóhannsdóttir við störf í Eldheimum í dag, hálfri öld eftir gosið í Vestmannaeyjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hálf öld er í dag liðin frá því eldgos hófst við byggðina í Vestmannaeyjum en gosið hófst aðfaranótt 23. janúar árið 1973. 

„Ég og þrír bræður mínir vorum heima með pabba, Jóhanni Friðfinnssyni. Hann vakti okkur og gekk um gólf. Hann var í rauninni alveg þrælæstur og kallaði „Guð almáttugur“ mörgum sinnum en það var kannski ekki skrítið því hann var formaður sóknarnefndar,“ segir Kristín Jóhannsdóttir, þegar hún rifjaði upp nóttina örlagaríku með mbl.is í Vestmannaeyjum í dag. 

„Þegar ég vaknaði og leit út um gluggann þá fannst mér sem austurbærinn væri að brenna. Það eina sem mér datt í hug var að nú væri skollið á stríð. Foreldrar mínir lásu Morgunblaðið á hverjum degi og þar var fjallað reglulega um að rússnesku spútníkana sem væru allt í kringum Ísland. Þetta var jú í kalda stríðinu og það eina sem mér datt í hug var að nú væru Rússarnir komnir. Þegar pabbi náði sér niður sagðist hann halda að þetta væri eldgos. Nú þyrftum við að kanna hversu mikið gosið væri,“ segir Kristín en þau bjuggu ekki nærri gosstöðvunum. 

„Við bjuggum í vesturhluta bæjarins sem var ekki svo sjálfsagt á þeim tíma. Á árunum fyrir gos var vinsælla að byggja í austurhlutanum og norðaustar en pabbi hafði átt lóð í vesturhlutanum. Flestir unnu nærri höfninni eða miðbænum og fólk vildi að vegalengdin í vinnuna væri stutt enda voru ekki allir á bílum á þessum tíma. Þegar gosið brast á þá má segja að við höfum verið í hæfilegri fjarlægð frá gosstöðvunum. Við höfðum því ekki tilfinningunni að það gæti kviknað í á næstu mínútum eftir að við vorum vakin.“

Frá safninu í Eldheimum en þar standa rústir einbýlishús sem …
Frá safninu í Eldheimum en þar standa rústir einbýlishús sem stóð við Gerðisbraut 10. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Kristín var 13 ára þegar gosið hófst og hún segir að áhyggjur ungmenna hafi verið aðrar en hjá eldra fólkinu. 

„Áhyggjur fólks voru auðvitað mismunandi eftir því á hvaða aldri fólk var sem upplifði þetta. Fullorðið fólk hafði auðvitað áhyggjur af atvinnuöryggi og hvað tæki við þegar kaupstaðurinn færi undir hraun. Við sem vorum 13 ára höfðum annars konar áhyggjur af stöðunni og maður velti fyrir sér hvort maður þyrfti að mæta í skólann eða ekki,“ útskýrir Kristín en hún var ekki óvön því að fara til Reykjavíkur.  

„Í mínu tilviki þá var var ýmislegt frábrugðið á mínu heimili í samanburði við aðra í Eyjum. Til dæmis vorum við vön því að fara reglulega til Reykjavíkur vegna þess að mamma, Svanhildur Sigurjónsdóttir, var þaðan. Hún fór reglulega upp á land til að anda því hún fékk einhvers konar innilokunarkennd í Vestmannaeyjum. Ég var því vön að flækjast á milli en það var ekki sjálfsagt. Það voru kannski krakkar á mínum aldri sem höfðu farið örsjaldan til Reykjavíkur enda var ekki sami þvælingur á fólki í þá daga.  Mamma var stödd í Reykjavík þegar gosið hófst.“

Gat verið að maðurinn væri drukkinn?

Jóhanni tókst að hringja í Svanhildi um nóttina og tilkynna henni hvað gekk á í Vestmannaeyjum en hún átti bágt með að trúa því sem skiljanlegt er. 

„Þegar pabba tókst að hringja í mömmu, og segja henni hvers kyns var, þá hélt hún að pabbi hlyti að vera fullur jafnvel þótt hann hefði aldrei drukkið áfengi. Þá reyndi hann að tilkynna henni að hann væri að senda börnin í bát til Þorlákshafnar. Við lágum í lestinni í Danska Pétri og urðum auðvitað þvílíkt sjóveik enda tók siglingin sex eða sjö tíma. Strætóarnir í Reykjavík voru sendir til Þorlákshafnar og við fórum til Reykjavíkur með strætó. Okkur var ekið í Austurbæjarskóla og mamma sótti okkur þangað,“ rifjar Kristín upp en hún átti eftir að flytja aftur til Eyja en það gerðist meira en einu og hálfu ári síðar. 

„Í kjölfarið tók við óvissutími þar sem maður vissi ekkert hvað yrði. Pabbi fór hins vegar ekki upp á land og var meira eða minna í Eyjum en hann var í bæjarstjórn. Varðandi kirkjuna þá fór hann og kveikti þar öll ljós. Hann tók að ég held þá ákvörðun sem formaður sóknarnefndar að ekkert yrði fjarlægt úr kirkjunni. Ef Landakirkja færi í gosinu þá færi bara allt með henni. Mamma kom aftur til Eyja með okkur systkinin haustið 1974. 

Ég fór í Laugarnesskóla og við eldri krakkarnir fengum okkar Vestmannaeyjabekki í Reykjavík. Alla vega í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla voru rýmdar kennslustofur og Vestmannaeyingar settir í þær. Við fengum einn af okkar fínu kennurum með okkur, Gumma Jens. Fyrir mig var þetta alla vega nokkuð mjúk lending og svo var okkur boðið til Noregs um sumarið. Líklega var ég á ágætum aldri til að takast á við þetta. Ég hafði auk þess alist upp við það í hverjum einasta sunnudagsbíltúr að horfa á Surtseyjargosið en ég er fædd árið 1960. Fyrir okkur var örugglega auðveldara að takast á við eldgos heldur en til dæmis Rússana og mögulegt stríð. Fyrsta hugsunin var alla vega að þetta yrði allt í lagi,“ segir Kristín sem hefur upplifað nokkra heimsviðburði. Fyrst Surtseyjargosið, því næst gosið á Heimaey og loks var hún búsett í Berlín þegar Berlínarmúrinn féll. 

Útlendingar sáu atburðina í öðru ljósi

Kristín hefur umsjón með hinu glæsilega safni í Eldheimum í Vestmannaeyjum en þar er ýmsan fróðleik að finna um Surtseyjargosið og gosið á Heimaey. Um langa hríð áttaði Kristín sig hins vegar ekki á því hversu merkilegur atburður gosið árið 1973 var en það átti eftir að breytast.

„Það tók mig tíma að átta mig á því hversu merkilegur viðburður þetta var. Um tíma fannst manni hálfhallærislegt að vera úr Vestmannaeyjum. Krakkarnir í Reykjavík höfðu eitthvað verið að stríða okkur og svona. Manni var boðið upp á gos og hraun en einnig fékk maður að heyra að Eyjamenn væru eins konar þurfalingar á þjóðinni þegar uppbyggingarstarfið var í gangi.“ 

Kristín fór síðar til Þýskalands í nám og dvaldist þar lengi. „Löngu síðar var ég flutt til Þýskalands og var í markaðsstarfi fyrir Icelandair í Frankfurt. Þá fannst erlendum blaðamönnum alveg svakalega merkilegt að ég kæmi frá þessum gosstöðvum. Þá áttaði ég mig betur á því að þessir atburðir voru stórmerkilegir og við þyrftum að vinna miklu meira með þetta. En það lærði ég af útlendingum,“ segir Kristín Jóhannsdóttir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert