„Það er augljóst. Þarna telur Efling að sé hægt að valda miklum skaða – sem er rétt. Þetta er árás á ferðaþjónustuna þótt að þarna séu tekin fyrir tvö fyrirtæki,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, spurður hvers vegna Efling beini verkfallsaðgerðum sérstaklega að hótelrekstri.
„Á hitt ber að líta, að forysta Eflingar gengur bara alls ekki í takt við sitt félagsfólk. Eins og við höfum séð í fjölmiðlum undanfarna tólf daga hefur félagsfólk Eflingar víða reynt að koma sér út úr félaginu. Við höfum líka fundið fyrir þessu hér á allt allt öðrum takti en í fyrri verkfallsaðgerðum árið 2019,“ segi Jóhannes sem segir fólk ósátt við að fá ekki að greiða atkvæði um samningstilboð Samtaka atvinnulífsins.
„Það birtist í því að þarna er skrípaleikur á ferðinni þar sem niðurstaðan er sú að beina þessu gegn Íslandshótelum og Fosshótelum eingöngu sem sýnir bara fram á það að forysta Eflingar hefur ekki náð að fá aðra félagsmenn með sér í ruglið.“
Spurður hvort að fyrirkomulag verkfallsaðgerðanna sem beint er að tveimur fyrirtækjum, Íslandshótelum og Fosshótelum, geri Samtökunum erfiðara fyrir að beita sínum vopnum, sem eru vinnubönn segir Jóhannes svo ekki vera.
„Við höfum eftir sem áður öll tækin í vinnumarkaðslöggjöfinni og munum bara, eins og komið hefur fram, skoða hvort að unnt sé að beit þeim.“
Spurður hvort að hann ásamt öðrum stjórnendum í Samtökum atvinnulífsins séu farin að ræða beitingu vinnubanna, kýs Jóhannes að svara því ekki og vísar á Halldór Benjamín, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Er einhver ástæða til að ætla að starfsfólk hótela sé tilbúnara að fara í verkföll en annað félagsfólk Eflingar?
„Nei það er engin ástæða til að ætla að þessi hópur sé tilbúnari, umfram aðra félagsmenn Eflingar að fara í verkföll. Verkföll eru ömurleg hlutskipti fyrri alla sem að því koma. Bæði fyrir þau fyrirtæki sem verða fyrir þeim en ekki síður fólkið sem þarf að fara í verkfall. Tjónið verður fyrir alla.“
Jóhannes bætir því við að það sé slæmt fyrir starfsfólk þessara fyrirtækja að vera sett í þessa stöðu af forystu Eflingar „og ekki síður fyrir annað félagsfólk Eflingar að það sé lítill hópur sem látinn er sitja uppi með Svarta Pétur varðandi þetta vegna þess að niðurstaðan hefur áhrif á alla félagsmenn Eflingar.“
Ertu að meina að lítill hópur sé að taka ákvörðun um hvort að afturvirkni samninga sé endanlega út af borðinu?
„Ég er að meina að ef félagsmenn í Eflingu hafa einhvern áhuga á því frekar að forysta Eflingar setjist að samningaborðinu og vinni áfram að samningum á svipuðum grunni og aðrir hafa samþykkt, þá er alveg ljóst að verkfallsboðun myndi slá slíka möguleika út af borðinu, að vinna það upp aftur.“