Útilokar ekki beitingu verkbanns

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hún slær mig afar illa. Ég tel eins og áður mjög óskynsamlegt að efna til ófriðar á vinnumarkaði við þessar aðstæður,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spurður hvernig verkfallsboðun Eflingar frá því fyrr í dag slái sig. 

„Sama má segja um nær alla aðra viðsemjendur okkar, þar á meðal öll önnur félög SGS. Það sama tel ég reyndar eiga við um stóran hóp Eflingarfólks.“

Kjörstjórn Eflingar boðaði í dag atkvæðagreiðslu um verkföll í tveimur hótelkeðjum, sem reka sjö hótel í Reykjavík.

Líklega ekki meirihluti fyrir aðgerðunum 

Halldór Benjamín segist telja að það sé alls ekki meirihluti á fyrir slíkum aðgerðum á flestum vinnustöðum Eflingarfélaga. „Hér er agnarsmár hópur að knýja á um gerð kjarasamnings fyrir 21 þúsund Eflingarfélaga.“

Hann segir aðgerðirnar slá sig sem illa hugsaðan leiðangur fámenns hóps „og ég á erfitt með að sjá hvert endatakmarkið er, annað en að efna til óþarfa slagsmála á milli viðsemjenda og reyna með því að réttlæta herskáar yfirlýsingar forystu félagsins,“ segir hann.

„Ljóst er að félagsmenn Eflingar verða nú af miklum kjarabótum sem fólgnar eru afturvirkni samninga og samið var um við nánast alla aðra launþega á almennum vinnumarkaði. Afturvirkni samninga var eitt af því sem önnur verkallýðsfélög lögðu ríka áherslu á enda var það málefnalegt mat þeirra að mikið lægi við að skila kjarabótum hratt til sinna félagsmanna.“

Hefði kosið að skoða aðlögun með Eflingu

„Samningurinn á borðinu er 15 mánaða aðfararsamningur að langtímasamningi sem er þegar byrjað að undirbúa. Viðlíka skammtímasamningur var undirritaður við nær alla sem starfa á almennum vinnumarkaði fyrir jól og ég hefði frekar kosið að skoða betur hvernig aðlaga mætti hann að þörfum Eflingar en að horfa á samfélagið fara hér allt úr skorðum.

Allt vegna óhappaleiðangurs þröngs hóps í forystu Eflingar, sem koma mun niður á þeim sem síst skyldi.“

 SA tekur ekki þátt í að draga fólk í dilka

„Það er lítil sanngirni í því fyrir félagsmenn Eflingar að Sólveig Anna neiti þeim staðfastlega um kjarabætur sem þeim hafa staðið til boða allt frá því í haust. Ósanngjarnar kröfur Sólveigar Önnu um sérstakt höfuðborgarálag fyrir láglaunafólk á höfuðborgarsvæðinu er bæði ómálefnalegur málflutningur og til þess fallinn að draga fólk í dilka eftir búsetu. Samtök atvinnulífsins hafa ekki og munu ekki taka þátt í slíku.“

1% Eflingarfólks fá að greiða atkvæði

„Mér skilst að þeir sem fái að greiða atkvæði séu 288 Eflingarfélagar hjá Íslands- og Fosshótelum. Það er 1% Eflingarfólks. Það má spyrja hversu eðlilegt það hlutfall sé í ljósi þess að nær allir aðrir aðilar vinnumarkaðarins hafa rætt sig niður á málamiðlun og samið um brúarsamning að nýjum langtímasamning í anda lífkjarasamningsins.“

Hvað gerist næst?

„Nú fer fram atkvæðagreiðsla. Mér skilst að forysta Eflingar hafi kannað jarðveginn víðar og stuðningur við verkföll hafi verið lítill. Við þurfum að bíða og sjá.“

Kemur til greina að beita verkbanni?

„Reynslan hefur kennt okkur að útiloka ekki neitt þegar kemur að samskiptum við forystu Eflingar.“

Afturvirkni og verkföll fara ekki saman

Hvað með afturvirknina? Er hún úti af borðinu? 

„Um leið og verkföll koma til framkvæmda þá er of seint að ræða um afturvirkni. Það er lína sem mörkuð var fyrir löngu af Samtökum atvinnulífsins og frá henni er aldrei hvikað.“

Telur þú að það verði mikil röskun samfara þessu verkfalli?

„Við þekkjum það Íslendingar að litlir hópar geta sett samfélagið úr skorðum með verkföllum og það er ljóst að afleiðingar þessara verkfalla, komi þau til framkvæmda, hafa víðtæk áhrif, bæði á fjölmarga Eflingarfélaga en einnig marga aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka