Stórt framkvæmdaár fram undan

Opinberir aðilar sjá fram á mikla aukningu í útboðum á …
Opinberir aðilar sjá fram á mikla aukningu í útboðum á árinu, en líka í framkvæmdum. Munar þar tugum milljarða á milli ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfang áformaðra útboða á þessu ári eykst mjög miðað við síðasta ár, gangi áform opinberra aðila eftir sem taka þátt á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins.

Gera þessir aðilar ráð fyrir að útboð á árinu nemi samtals 173 milljörðum, en það er 60% aukning frá því í fyrra þegar sömu aðilar áformuðu að ráðast í 108 milljarða útboð árið 2022.

Stefnt á 35 milljarða umfram fjárfestingar í fyrra

Þegar horft er til fjárfestinga sem opinberir aðilar ætla að ráðast í á árinu nemur upphæðin 131 milljarði, en það er 12 milljörðum meira en áætlað var í fyrra.

Gerðu þessir aðilar ráð fyrir 119 milljarða fjárfestingu á Útboðsþinginu í fyrra, en uppfærðar tölur sýna að aðeins var fjárfest fyrir 96 milljarða, eða 23 milljörðum undir áætlun.

Heildartölur yfir áformuð útboð og framkvæmdir á árinu, samanborið við …
Heildartölur yfir áformuð útboð og framkvæmdir á árinu, samanborið við sömu tölur frá því á Útboðsþingi í fyrra. Graf/SI

Stór útboð hjá Landsvirkjun og FSRE

Stærstu tölurnar þegar kemur að nýjum útboðum eru hjá Landsvirkjun, en þar er nú gert ráð fyrir 46 milljarða útboði á árinu, m.a. vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun og Búrfellslund á Þjórsársvæðinu. Þá er einnig um að ræða útboð vegna undirbúnings fyrir stækkun Þeistareykjastöðvar og niðurdælingu á jarðhitagösum á Þeistareykjum. Til samanburðar voru útboð Landsvirkjunar á síðasta ári upp á 700 milljónir.

Þá stefnir Framkvæmdasýsla ríkiseigna á að bjóða út verkefni fyrir 35 milljarða á árinu, en það er um tvöfalt meira en áætlað var á síðasta ári þegar áformin hljóðuðu upp á 19 milljarða. Ekki varð þó úr nema tæplega helmingi útboðanna, eða fyrir samtals 8,5 milljarða. Er á þessu ári um að ræða útboð vegna nýframkvæmda fyrir 31 milljarð og viðhalds og endurbóta upp á 3,7 milljarða. Stærstur hlutinn, eða 17 milljarðar af þessari köku eru ætlaðir á sviði dómsmálaráðuneytisins og um 9,6 milljarðar á sviði heilbrigðisráðuneytisins.

Mikill samdráttur hjá Reykjavíkurborg

Útboðsáætlun Vegagerðarinnar hljóðar upp á 35 milljarða sem lækkar um 3 milljarða á milli ára. Hins vegar var ekki ráðist í nema um helming þeirra útboða sem voru fyrirhuguð í fyrra, eða fyrir 19 milljarða.

Mesta aukningin í áformuðum útboðum á árinu er að finna …
Mesta aukningin í áformuðum útboðum á árinu er að finna hjá Landsvirkjun og Framkvæmdasýslu ríkiseigna. Graf/SI

Meðal annarra opinberra aðila sem áforma umfangsmikil útboð eru Nýi Landspítalinn sem ætlar að bjóða út verk fyrir 16 milljarða samanborið við 8 milljarða í fyrra. Þá áforma Samtök sveitarfélaga útboð upp á 13 milljarða, sem er sambærilegt við Landsnet. Reykjavíkurborg boðar 9 milljarða útboð sem er aðeins um þriðjungur af því sem var fyrirhugað í fyrra þegar borgin ætlaði að ráðast í útboð upp á 27 milljarða.

SSH boða auknar framkvæmdir á árinu

Þegar horft er til áformaðra fjárfestinga á árinu boða Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu umfangsmestu framkvæmdirnar, eða upp á 24,5 milljarða. Er meðal annars horft til gatnagerðar á nýjum íbúða- og iðnaðarsvæðum, endurbætur á skólahúsnæði og framkvæmdir tengdar vatns- og fráveitu og stofnlögnum.

Vegagerðin boðar framkvæmdir upp á 23 milljarða sem er samdráttur frá í fyrra þegar farið var í framkvæmdir upp á tæplega 26 milljarða. Áætlað er að 13,6 milljarðar fari í nýframkvæmdir og 9,5 milljarðar í viðhaldsverkefni. M.a. á að halda áfram við tvöföldun Reykjanesbrautar og vinnu við Arnarnesveg. Þá er einnig horft til framkvæmda við brú yfir Ölfusá við Selfoss og Axarveg um Öxi, en sú vinna er í lokahönnun.

Reykjavíkurborg áformar að draga úr framkvæmdum á þessu ári um …
Reykjavíkurborg áformar að draga úr framkvæmdum á þessu ári um helming miðað við í fyrra. Graf/SI

Tvöföldun hjá Nýja Landspítalanum

Nýi Landspítalinn boðar verulega aukningu í fjárfestingu milli ár, eða úr 10,5 milljörðum í 20 milljarða. Er þar um að ræða jarðvinnu og uppsteypu á húsi heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands auk gatna-, veitu- og lóðagerðar við Hringbraut. Reykjavíkurborgar borðar hins vegar samdrátt og gerir ráð fyrir 19 milljarða fjárfestingu samanborið við 32 milljarða í fyrra.

Meðal annarra aðila sem boða aukna fjárfestingu milli ára eru Veitur, Landsnet og Landsvirkjun, en Isavia boðar samdrátt. Gera þessi fjögur fyrirtæki nú ráð fyrir fjárfestingu upp á 44 milljarða á þessu ári, en í fyrra voru fjárfestingarnar upp á 35,6 milljarða samtals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert