Umfang áformaðra útboða á þessu ári eykst mjög miðað við síðasta ár, gangi áform opinberra aðila eftir sem taka þátt á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins.
Gera þessir aðilar ráð fyrir að útboð á árinu nemi samtals 173 milljörðum, en það er 60% aukning frá því í fyrra þegar sömu aðilar áformuðu að ráðast í 108 milljarða útboð árið 2022.
Þegar horft er til fjárfestinga sem opinberir aðilar ætla að ráðast í á árinu nemur upphæðin 131 milljarði, en það er 12 milljörðum meira en áætlað var í fyrra.
Gerðu þessir aðilar ráð fyrir 119 milljarða fjárfestingu á Útboðsþinginu í fyrra, en uppfærðar tölur sýna að aðeins var fjárfest fyrir 96 milljarða, eða 23 milljörðum undir áætlun.
Stærstu tölurnar þegar kemur að nýjum útboðum eru hjá Landsvirkjun, en þar er nú gert ráð fyrir 46 milljarða útboði á árinu, m.a. vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun og Búrfellslund á Þjórsársvæðinu. Þá er einnig um að ræða útboð vegna undirbúnings fyrir stækkun Þeistareykjastöðvar og niðurdælingu á jarðhitagösum á Þeistareykjum. Til samanburðar voru útboð Landsvirkjunar á síðasta ári upp á 700 milljónir.
Þá stefnir Framkvæmdasýsla ríkiseigna á að bjóða út verkefni fyrir 35 milljarða á árinu, en það er um tvöfalt meira en áætlað var á síðasta ári þegar áformin hljóðuðu upp á 19 milljarða. Ekki varð þó úr nema tæplega helmingi útboðanna, eða fyrir samtals 8,5 milljarða. Er á þessu ári um að ræða útboð vegna nýframkvæmda fyrir 31 milljarð og viðhalds og endurbóta upp á 3,7 milljarða. Stærstur hlutinn, eða 17 milljarðar af þessari köku eru ætlaðir á sviði dómsmálaráðuneytisins og um 9,6 milljarðar á sviði heilbrigðisráðuneytisins.
Útboðsáætlun Vegagerðarinnar hljóðar upp á 35 milljarða sem lækkar um 3 milljarða á milli ára. Hins vegar var ekki ráðist í nema um helming þeirra útboða sem voru fyrirhuguð í fyrra, eða fyrir 19 milljarða.
Meðal annarra opinberra aðila sem áforma umfangsmikil útboð eru Nýi Landspítalinn sem ætlar að bjóða út verk fyrir 16 milljarða samanborið við 8 milljarða í fyrra. Þá áforma Samtök sveitarfélaga útboð upp á 13 milljarða, sem er sambærilegt við Landsnet. Reykjavíkurborg boðar 9 milljarða útboð sem er aðeins um þriðjungur af því sem var fyrirhugað í fyrra þegar borgin ætlaði að ráðast í útboð upp á 27 milljarða.
Þegar horft er til áformaðra fjárfestinga á árinu boða Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu umfangsmestu framkvæmdirnar, eða upp á 24,5 milljarða. Er meðal annars horft til gatnagerðar á nýjum íbúða- og iðnaðarsvæðum, endurbætur á skólahúsnæði og framkvæmdir tengdar vatns- og fráveitu og stofnlögnum.
Vegagerðin boðar framkvæmdir upp á 23 milljarða sem er samdráttur frá í fyrra þegar farið var í framkvæmdir upp á tæplega 26 milljarða. Áætlað er að 13,6 milljarðar fari í nýframkvæmdir og 9,5 milljarðar í viðhaldsverkefni. M.a. á að halda áfram við tvöföldun Reykjanesbrautar og vinnu við Arnarnesveg. Þá er einnig horft til framkvæmda við brú yfir Ölfusá við Selfoss og Axarveg um Öxi, en sú vinna er í lokahönnun.
Nýi Landspítalinn boðar verulega aukningu í fjárfestingu milli ár, eða úr 10,5 milljörðum í 20 milljarða. Er þar um að ræða jarðvinnu og uppsteypu á húsi heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands auk gatna-, veitu- og lóðagerðar við Hringbraut. Reykjavíkurborgar borðar hins vegar samdrátt og gerir ráð fyrir 19 milljarða fjárfestingu samanborið við 32 milljarða í fyrra.
Meðal annarra aðila sem boða aukna fjárfestingu milli ára eru Veitur, Landsnet og Landsvirkjun, en Isavia boðar samdrátt. Gera þessi fjögur fyrirtæki nú ráð fyrir fjárfestingu upp á 44 milljarða á þessu ári, en í fyrra voru fjárfestingarnar upp á 35,6 milljarða samtals.