Fyrir hvern setur þú upp kolluna?

Lífið er núna-húfur Krafts fara í sölu á föstudaginn og …
Lífið er núna-húfur Krafts fara í sölu á föstudaginn og rennur allur ágóði af sölunni til starfseminnar. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum að byrja okkar herferð í dag og í henni erum við að fara að selja Lífið er núna-húfur,“ segir Stefán Magnússon í samtali við mbl.is, framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk, sem greinst hefur með krabbamein, og aðstandendur þess.

Herferðin sem hann ræðir er fjáröflunar- og árvekniátak Krafts sem meðal annars felur í sér sölu á áðurnefndum Lífið er núna-húfum auk þess að vekja athygli á þeim áskorunum sem verða á vegi þeirra sem greinast með krabbamein að ógleymdum aðstandendum.

„Við erum að fara að láta vita af okkar starfi og því að við séum hérna. Við vinnum mjög öflugt starf fyrir unga einstaklinga sem greinast með krabbamein, 18 til 40 eða 45 ára, það er um það bil aldursbilið sem við einbeitum okkur að ásamt aðstandendum á öllum aldri,“ heldur framkvæmdastjórinn áfram.

Vestfirðir bíða vegna færðar

Greinir hann frá stífri dagskrá sem hefst í dag og stendur allt til 20. febrúar en húfusalan stendur í þrjár vikur frá komandi föstudegi að telja. „Meðfram húfusölunni keyrum við hringinn í kringum landið og látum heyra í okkur, vekjum athygli á okkur og verðum með viðburði í Vík, Höfn, Neskaupstað, Akureyri, Reykjanesbæ og Reykjavík,“ segir Stefán frá og er fljótur að bæta því við að ekki sé ætlunin að sniðganga Vestfirðina en þeir þurfi þó að sitja á hakanum þessa umferð.

Fulltrúar Krafts munu ferðast hringinn um landið ásamt tónlistarfólki, halda …
Fulltrúar Krafts munu ferðast hringinn um landið ásamt tónlistarfólki, halda uppi fjöri og kynna starfsemina. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ætla bara að bíða þar til veðrið verður aðeins stabílla,“ heldur hann áfram og segir áætlunina ekki leyfa að föruneyti Krafts verði veðurteppt neins staðar þennan fimbulvetur sem kalla mætti í kjölfar áraraða með tiltölulega mildum vetrum allt frá aldamótum.

Hann segir tónlistarfólk munu leggja gjörva hönd á plóg í ferðalaginu sem svo ljúki með stórhátíð í Iðnó laugardaginn 4. febrúar, á alþjóðlegum baráttudegi gegn krabbameinum.

Bíða ekki eftir að peningar flæði inn

Vitundarvakning Krafts er nokkurn veginn árlegur viðburður þótt sniðið á henni sé mismunandi frá ári til árs, aðalatriðið sé að vekja athygli á starfi Krafts og því sem félagið bjóði upp á. „Þegar þú ert ekki á ríkisspenanum þarftu bara að vinna fyrir kaupinu þínu, við sitjum ekki bara hérna og bíðum eftir að peningarnir flæði hérna inn, við þurfum að taka á því og sýna okkur til að eitthvað gerist,“ segir Stefán.

Hvernig skyldi starfsemi Krafts þá vera svona almennt, árið um kring, hvernig sinnir félagið starfi sínu?

„Við erum til staðar fyrir alla, allir eru í raun velkomnir. Þú greinist með krabbamein eða einhver nákominn þér og þá kvikna spurningarnar, „ókei, hvað er að fara að gerast?“, og þá er sniðugt að vera í sambandi við okkur og koma til okkar. Við hjálpum þér, beinum þér á rétta staði og erum til staðar fyrir þig,“ útskýrir Stefán.

Í raun svolítið eins og AA

Félagið standi fyrir víðtækri starfsemi sem snúist um krabbameinsgreinda og tekur Stefán sérstaklega fram að aðstandendur séu alltaf velkomnir með. „Við erum með alls konar hópa og jafningjastuðning, þetta er í raun svolítið eins og AA þannig séð. Ef þú færð krabbamein af einhverjum toga er rosalega gott að tengja þig við einhvern sem hefur gengið í gegnum það sama og það gerum við hjá Krafti,“ segir Stefán frá.

Stefán Magnússon framkvæmdastjóri segir lítið stoða að sitja bara og …
Stefán Magnússon framkvæmdastjóri segir lítið stoða að sitja bara og bíða eftir að peningarnir flæði inn, Kraftur þurfi að standa undir sinni fjáröflun af krafti. Ljósmynd/Aðsend

Félagið sé hvort tveggja með fagfólk á sínum vegum og vísi félögum sínum auk þess á samstarfsaðila á borð við sálfræðinga og markþjálfa. Þjónustan sé að langmestu leyti, 99,9 prósent segir Stefán, félögum að kostnaðarlausu en fjöldi þeirra sem leita til félagsins sé mjög mismunandi frá einum tíma til annars. 

„Það er algengt að fólk komi til okkar samdægurs eða daginn eftir að það greinist. Þetta er auðvitað áfall, þú veist ekkert, þú spyrð þig hvað þú sért að fara að ganga í gegnum og hvað fjölskylda þín sé að fara að ganga í gegnum. Við erum að grípa fólkið og koma því aftur af stað, við erum bara, svo ég sé alveg einlægur, frábær stuðningur,“ segir Stefán af félaginu sem brátt hefur starfað í aldarfjórðung, hóf göngu sína árið 2000.

„Við hvetjum fólk til að standa með okkur, kaupa húfur og koma á tónleika, bara hafa gaman með okkur,“ segir Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Krafts, að lokum.

Húfur í sölu á föstudaginn

„Fyrir hvern setur þú upp kolluna?“ er yfirskrift átaksins í ár og vísar til þess að oft og tíðum missir fólk hárið í krabbameinsmeðferð og sumir velja að setja upp hárkollu. Með því að setja upp Lífið er núna-kolluna, annað orð yfir húfu, er athygli vakin á starfsemi Krafts í þágu ungs fólks með krabbamein og aðstandenda þess.

Húfurnar eru til sölu í vefverslun Krafts á síðunni lifidernuna.is og verða einnig í völdum verslunum Krónunnar, Kúnígúnd í Kringlunni og Companys í Smáralind. Húfurnar kosta 4.900 krónur og rennur allur ágóði af þeim í starfsemi Krafts og í að styðja þar með við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum. 

lifidernuna.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert