Lekinn í Fossvogsskóla kom ekki frá þakinu

Vatnsleki í Fossvogsskóla 20. janúar 2023.
Vatnsleki í Fossvogsskóla 20. janúar 2023. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lekinn á föstudag kom ekki frá þakinu heldur frá stóru rennunum sem eru áfastar þakkanti. Loftgæði eru mæld og vöktuð allan sólarhringinn í Vesturlandi og er þurrkun enn í gangi en tryggt verður að byggingarefni nái eðlilegu rakastigi áður en farið verður í lokafrágang.

Þetta kemur fram í bréfi frá Ámunda Brynjólfssyni, skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg til foreldra, barna og starfsmanna Fossvogsskóla.

Í bréfinu kemur jafnframt fram að um upphaflega hönnun á þakrennunum hafi verið að ræða sem áttu að setja svip sinn á byggingarnar en í gegnum tíðina hefur verið bætt við yfir- og niðurföllum og hitaþráðum sem ekki var búið að bæta við þegar rennurnar voru endurnýjaðar nýlega. Við verklok verður framkvæmd lokaúttekt þar sem farið er yfir alla þætti framkvæmdar.

Ekki fjárhagslegt tjón fyrir Reykjavíkurborg

Af hálfu Reykjavíkurborgar var engu til sparað í þessu hvað varðar gæði hönnunar, framkvæmdar eða byggingarefna. Tryggingar eru til staðar og gerir Reykjavíkurborg ekki ráð fyrir að verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna málsins.

Teymi ráðgjafa og eftirlitsaðila til að standa að framkvæmdum við Fossvogsskóla axlar ábyrgð á því að önnur útfærsla og framkvæmd þakkantsins hefði komið í veg fyrir leka við þessar sérstöku veðuraðstæður.

Bréfið er svohljóðandi:

Það voru okkur öllum mikil vonbrigði þegar leysingavatn tók að rigna inn í fjórar stofur á vesturhliðinni í Vesturlandi í vatnsveðrinu sem gekk yfir Reykjavík fyrir helgi. Fumlaus viðbrögð starfsfólks og verktaka á föstudaginn og yfir helgina drógu hins vegar úr tjóni sem telst sem betur fer óverulegt. Reykjavíkurborg hefur nú farið ítarlega yfir málið með hönnuðum og eftirlitsaðilum og við teljum mikilvægt að deila með ykkur því sem við vitum um hvað gerðist og til hvaða aðgerða verður gripið í framhaldinu.

Lekinn á föstudag kom ekki frá þakinu heldur frá stóru rennunum sem eru áfastar þakkanti. Þetta er upphafleg hönnun á rennum sem setja svip sinn á byggingarnar en í gegnum tíðina hefur verið bætt við yfir- og niðurföllum og hitaþráðum. Ekki var búið að bæta við þessum þáttum þegar rennurnar voru endurnýjaðar nýlega. Við verklok verður framkvæmd lokaúttekt þar sem farið er yfir alla þætti framkvæmdar.

Teymi ráðgjafa og eftirlitsaðila til að standa að framkvæmdum við Fossvogsskóla axlar ábyrgð á því að önnur útfærsla og framkvæmd þakkantsins hefði komið í veg fyrir leka við þessar sérstöku veðuraðstæður. Unnið verður að úrbótum í samvinnu allra aðila til að koma í veg fyrir að tjón af þessu tagi komi fyrir aftur. Unnið verður að úrbótum í samvinnu allra aðila til að koma í veg fyrir að tjón af þessu tagi komi fyrir aftur.

Þegar ákvörðun var tekin að ráðast í heildræna endurnýjun á húsnæði Fossvogsskóla var haft að leiðarljósi að vanda sérlega vel til verka á öllum stigum hönnunar og framkvæmda. Í öllu ferlinu hefur verið reynt af fremsta megni að tryggja gæði framkvæmda en jafnframt að mæta metnaðarfullum tímaáætlunum um að flytja skólastarfið allt aftur í Fossvogsdalinn síðasta haust. Af hálfu Reykjavíkurborgar er engu til sparað í þessu hvað varðar gæði hönnunar, framkvæmdar eða byggingarefna. Verkfræðistofan Efla hefur haft eftirlit með hönnun og framkvæmd og unnið var með Teiknistofu Gunnars Hanssonar ásamt Hornsteinum arkitektum. Stýriverktaki er E. Sigurðsson ehf.

Loftgæði eru mæld og vöktuð allan sólarhringinn í Vesturlandi. Verkfræðistofan Efla sér um þær mælingar og vöktun. Það var lán í óláni að lekinn varð þegar starfsfólk var á staðnum til að bregðast snarlega við þó að sjálfssögðu hafi raskið á skólastarfi verið mjög bagalegt. Samdægurs var fjarlægt allt byggingarefni sem hafði blotnað og þurrkun komin í gang síðdegis. Þurrkun er enn í gangi og tryggt verður að byggingarefni nái eðlilegu rakastigi áður en farið verður í lokafrágang á því svæði þar sem lekinn varð. Áfram verður svo haldið að vakta svæðið og loftgæði eins og verið hefur frá því skólinn flutti til baka í Fossvoginn síðastliðið haust. Tryggingar eru til stað og Reykjavíkurborg gerir ekki ráð fyrir að verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna málsins.

Það er okkur mikið kappsmál að endurbyggingin á Fossvogsskóla verði farsæl og að börnum og starfsfólki verði búið heilnæmt umhverfi fyrir vinnu og nám. Við erum þakklát fyrir gott samstarf og samtal við foreldrasamfélagið og starfsfólk skóla á framkvæmdatímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka