Stjórn Samtaka atvinnulífsins áréttaði á fundi sínum í gærkvöldi fullan stuðning samtakanna við Íslandshótel vegna þeirra verkfallsaðgerða sem Efling beinir nú sérstaklega að fyrirtækinu.
Stuðningur SA felur m.a. í sér að vinnudeilusjóði samtakanna verður heimilt að greiða Íslandshótelum allt tjón sem af vinnustöðvun hlýst, komi hún til framkvæmda. Um er að ræða frávik frá útdeilingarreglum sjóðsins. Ljóst er að atvinnurekendur ætla sér að takmarka áhrif verkfallsaðgerða svo um munar. „Eignir vinnudeilusjóðs SA eru um fimm milljarðar króna og sjóðurinn er meðal annars hugsaður til að bregðast við skæruverkföllum og ef gripið er til ómálefnalegra aðgerða gegn aðildarfyrirtækjum samtakanna,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, sem einnig er framkvæmdastjóri vinnudeilusjóðs SA.
„Engin rök hafa verið færð fyrir því af hverju Efling beinir spjótum sínum einungis að einum rekstraraðila í ferðaþjónustu og ætlast til að 280 Eflingarfélagar leggi einir niður störf til að ná fram kjarasamningi fyrir 21 þúsund félaga Eflingar,“ segir í ályktun stjórnar SA frá fundinum í gær.
Þá fordæmir stjórn Samtaka atvinnulífsins að aðgerðir Eflingar eigi að beinast gegn einu fyrirtæki. „Það sé í andstöðu við anda viðtekinna leikreglna á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins hafa þegar undirritað kjarasamninga við 18 aðildarfélög SGS, VR, LÍV, stéttarfélög iðn- og tæknifólks auk fjölda annarra stéttarfélaga með samtals yfir 90 þúsund félagsmenn. Samningarnir hafa að jafnaði verið samþykktir með 85% greiddra atkvæða og þannig markað launastefnu til næstu 15 mánaða sem Samtök atvinnulífsins geta ekki og munu ekki hvika frá.“
Ekki hefur náðst í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, við vinnslu frétta af mögulegu verkfalli þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir svo dögum skiptir.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.