Olíubílstjórar undirbúa kröfugerð

Eflingarfélagar sem starfa við akstur olíuflutningabíla hjá Skeljungi og Olíudreifingu …
Eflingarfélagar sem starfa við akstur olíuflutningabíla hjá Skeljungi og Olíudreifingu hittust í Félagsheimili Eflingar í gærkvöldi. Ljósmynd/Efling

Sameiginleg samninganefnd félagsmanna Eflingar sem starfa við akstur olíuflutningabíla hjá Skeljungi og Olíudreifingu, var skipuð á fundi í gær, og drög lögð að kröfugerð. Olíubílstjórar í Eflingu starfa undir sama sérkjarasamningi við olíufélögin.

Í tilkynningu á vef Eflingar segir að mikil umræða hafi farið fram á fundinum um nauðsyn þess að meta álag, ábyrgð og meðferð hættulegra efna til launa. Olíubílstjórar og aðrir sem aki með hættuleg efni þurfi svokölluð ADR-réttindi, en þau séu ekki metin til launa í kjarasamningum sem stendur.

Í tilkynningunni segir jafnframt að trúnaðarmenn Eflingar hjá fyrirtækjunum hafi staðið að fundinum í samráði við skrifstofu félagsins, og að áður hafi verið haldnir vinnustaðafundir hjá hvoru fyrirtæki fyrir sig.

Til fundarins var fulltrúum úr samninganefnd Eflingar og bílstjórum hjá Samskip einnig boðið. Bílstjórar og hafnarverkamenn hjá Samskip hafa þegar myndað sína eigin samninganefnd og sett fram kröfugerð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert