SA fari hamförum í áróðri og árásum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður SA í baksýn. mbl.is/Hákon

„Á meðan Samtök atvinnulífsins fara hamförum í sífellt yfirgengilegri áróðri og árásum á vinnuafl höfuðborgarsvæðisins heldur Eflingar-fólk áfram að byggja upp samtakamátt sinn,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í færslu á Facebook-síðu sinni í dag.

Eins og greint hefur verið frá hafa Samtök atvinnulífsins og Efling ekki enn komist að samkomulagi um kjarasamninga og hafa deilurnar harðnað á milli samtakanna að undanförnu frekar en annað.

Ómissandi og halda öllu gangandi

Efling hefur þá boðað mögulegar verkfallsaðgerðir starfsmanna á starfstöðvum fyrirtækjanna Íslandshótela hf. og Fosshótela ehf. Leyni­leg kosn­ing stend­ur nú yfir um boðun vinnu­stöðvun­ar á starfs­stöðvum fyr­ir­tækj­anna.

Sólveig ítrekaði þá að starfskraftur félagsmanna Eflingar væri ómissandi jafnt og hún lýsti því yfir að félagsmenn Eflingar væru hugrakkir og myndu því ná árangri í viðræðum sínum við SA. 

„Eflingar-félagar eru magnaðir. Fólk allsstaðar að úr heiminum, fólk fætt hér og fólk hingað flutt, vinnuafl höfuðborgarsvæðisins, sem vinnur hlið við hlið á hverjum einasta degi við að halda hér bókstaflega öllu gangandi,“ sagði Sólveig.

Funduðu með olíubílstjórum

Sólveig tekur fram í færslu sinni að olíubílstjórar sem starfa hjá Skeljungi og Olíudreifingu hafi fundað með Eflingarmönnum sem starfa hjá samskiptum og félögum í samninganefnd. Að því sem fram kemur í færslunni var fundað lengi um hve nauðsynleg sanngjörn laun væru í starfi sem krefst ábyrgðar við meðferð hættulegra efna. 

„Það er sannarlega ekki staðan núna, eins ótrúlega ósanngjarnt og það er. Við skipuðum svo sameiginlega samninganefnd hjá Skeljungi og Olíudreifingu, en þar eru við störf frábærir trúnaðarmenn Eflingar sem hafa skipulagt fundi og rætt við menn um nauðsyn þess að standa saman í baráttunni fyrir mannsæmandi launum,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert