Toppar í framkvæmdum fram undan

Arnarnesvegurinn mun liggja frá Breiðholtsbraut yfir Vatnsendahæð og tengjast inn …
Arnarnesvegurinn mun liggja frá Breiðholtsbraut yfir Vatnsendahæð og tengjast inn á núverandi Arnarnesveg við Rjúpnaveg. Á þessari mynd er Breiðholtsbrautin hægra megin og er hverfið fyrir ofan Arnarnesveginn Seljahverfi í Breiðholti, en hverfið fyrir neðan hluti af Þingahverfi í Kópavogi.

Nokkrar stórar vega- og samgönguframkvæmdir eru fram undan á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári þar sem m.a. á að fara í lagningu Arnarnesvegar um Vatnsendahæð og tengja við Breiðholtsbraut. Þá ættu framkvæmdir að hefjast við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi út í Hvassahraun, en þetta er síðasti hluti Reykjanesbrautarinnar þar sem ekkert hefur verið farið í breikkun.

Hins vegar er nú fyrirséð að fyrstu framkvæmdir við borgarlínuna mun ekki hefjast fyrr en öðrum hvorum megin við næstu áramót, en fyrir rúmlega ári síðan var gert ráð fyrir að framkvæmdir við brú yfir Fossvog gætu hafist jafnvel strax núna í ársbyrjun.

Flækjustig framkvæmdanna er umtalsvert og þegar um svona stóra framkvæmd er að ræða þarf meðal annars að meta verkefnastöðu og möguleika verktaka til að bjóða í verkið á þeim tíma sem útboðið fer fram. Slíkar kannanir eru nú í gangi hjá Vegagerðinni.

Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjanesbraut og Arnarnesvegur stærstu verkefnin

Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, fóru m.a. yfir stöðu mála með samgöngusáttmála á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í gær og ræddu eftir fundinn við mbl.is um komandi verkefni, stöðu samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hverju höfuðborgarbúar megi búast við á árinu.

Fyrirhuguð breikkun á Reykjanesbraut frá Krýsuvíkurvegi framhjá álverinu í Straumsvík …
Fyrirhuguð breikkun á Reykjanesbraut frá Krýsuvíkurvegi framhjá álverinu í Straumsvík og út í Hvassahraun. Gert er ráð fyrir að breikka veginn í 2+2 aðskildar akreinar, breyta mislægum vegamótum við álverið, útbúa vegtengingar að Straumi og Álhellu, byggja mislæg vegamót við Rauðamel og útbúa tengingu að dælu- og hreinsistöð austan Straumsvíkur. Einnig er áformað að byggja undirgöng fyrir gangandi og hjólandi rétt austan við álverið sem og eftirlitsstaði fyrir umferðareftirlit beggja vegna Reykjanesbrautar, austan við Straumsvík. Kort/Vegagerðin

Stærsta einstaka verkefnið sem ráðist verður í á árinu er breikkun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi út í Hvassahraun. Nemur kostnaður við verkið 6 milljörðum. Óskar segir að útboð vegna þess muni fara út fljótlega og framkvæmdir hefjast í kjölfarið.

Annað stórt verkefni er síðasti áfangi Arnarnesvegar, tenging frá Rjúpnavegi og yfir Vatnsendahæð að Breiðholtsbraut þar sem koma á fyrir mislægum gatnamótum. Áætlaður kostnaður verksins er um 5 milljarðar, en það fer einnig í útboð fljótlega og segir Óskar að framkvæmdir muni sjást þar mjög fljótlega.

Göngu- og hjólastígar og ný brú

Af öðrum verkefnum á vegum Vegagerðarinnar á þessu ári er það helst að frétta að vinna á að hefjast við hjólastíga í efri hluta Elliðaárdals upp að Rjúpnavegi, en þessar framkvæmdir haldast að einhverju leyti í hönd við framkvæmdir við Arnarnesveg, eins og mbl.is hefur áður greint frá. Þá á að gera nýja göngu- og hjólabrú yfir Dimmu, sem einmitt tengist fyrrnefndum stígum.

Með lagningu Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut er einnig gert …
Með lagningu Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut er einnig gert ráð fyrir aðskildum göngu- og hjólastíg. Á hann meðal annars að fara yfir Breiðholtsbrautina, eins og sést á myndinni, og tengjast inn á stígakerfið í Elliðaárdal, bæði upp í Fellahverfi og niður í Dimmu, þar sem ný brú á að taka við fyrri brú yfir heitavatnsstokk.

Tafir á fyrstu framkvæmdum við Fossvogsbrú

Þegar vinningstillaga að nýrri brú yfir Fossvog, sem hefur verkefnaheitið Aldan, var tilkynnt fyrir rúmlega ári síðan fylgdu henni heit um að framkvæmdir ættu að hefjast við brúarendana í byrjun árs 2023, en verkefnið fór áfram í hönnunarferli hjá Vegagerðinni.

Óskar segir að undirbúningurinn sé langt kominn og á fleygiferð fyrir fjölmarga áfanga borgarlínuverkefnisins, en að nú sé áætlað að Fossvogsbrú þurfi líklega út þetta ár í hönnunarvinnu. Útboð vegna framkvæmda gæti því komið til öðrum hvorum megin við næstu áramót.

Þá er einnig ekki lokað fyrir það að farið verði í framkvæmdarútboð fyrir aðra valda kafla fyrstu lotu borgarlínunnar á árinu, en það er þó ekki enn komið á hreint. Óskar segir flækjustigið á verkefninu hátt, meðal annars þar sem um þéttbýlisverkefni sé að ræða þar sem mörg sveitarfélög séu að skipta með sér kostnaði.

„Það kostar ákveðna vinnu að leysa úr því öllu saman. Svo er með eignarhald, hver eigi að reka mannvirkin. Það er aukið flækjustig hvað það varðar,“ segir hann.

Mögulega þurfi að skoða löggjöfina um stofnvegi

Páll bætir því við að með samgöngusáttmálanum hafi komið öðruvísi hugsun en hafi áður verið í hefðbundinni kostnaðarskiptinu ríkis og sveitarfélaga.

„Það er ekki lengur verið að tala um þessa hefðbundnu stofnvegi, heldur að umferðin flytjist yfir í aðra samgöngumáta, eins og borgarlínu og hjóla- og göngustíga. Við höfum verið að benda á að mögulega þurfi að skoða löggjöfina með þetta í huga þegar kemur að kostnaðarskiptingu, bæði varðandi rekstur og svo eignarhaldið,“ segir hann.

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstöður um kostnaðarskiptingu á næstunni

Segir Páll vinnuna varðandi þessa kostnaðarskiptingu langt komna og það sama eigi við um vinnu sem tengist rekstri almannasamgangna. „Við erum enn að semja um það milli ríkis og sveitarfélaga og þeim viðræðum er ekki enn alveg lokið.“

Spurður hvenær búist megi við niðurstöðum um rekstrarkostnaðinn segir Páll að þeirra sé að vænta á næstu vikum eða mánuðum, „fyrir sumarið,“ segir Páll. Bendir hann á að gerðar hafi verið áfangaskýrslur um rekstur á þessu nýja almenningssamgöngukerfi. Segir hann ekki rétt sem gefið hafi verið í skyn að engar rekstraráætlanir séu til, þó þær séu ekki komnar fram að fullu.

Toppar á næstu árum 

Spurður nánar út í umfang verkefna vegna samgöngusáttmálans og borgarlínu á komandi árum segir Óskar að fram undan séu nokkur stór ár og „það verði toppar“. Vegna þessa vonast hann til þess að iðnaðurinn byggist vel upp í ár og á næsta ári. „Við höfum áhyggjur af því hversu mikið er að koma inn á vegum borgarlínunnar á næstu fimm árum,“ segir Óskar.

Segir hann að Vegagerðin sé að stilla verkefninu upp í áfanga þannig að markaðurinn ráði við það. „Eins og gefur að skilja eru þessi verkefni innan borgarmarkanna þar sem mikil þrengsli eru, en að sama skapi eru mannvirkin gríðarlega stór.“

Vegna þessa á Vegagerðin nú í svokölluðu markaðssamtali við fulltrúa iðnaðarins og verktaka. „Það er það sem er í gangi í dag. Erum að hitta marga verktaka og kortleggja hvað væru heppilegir áfangar þannig að markaðurinn bregðist vel við því sem kemur til útboðs hverju sinni og til að það komi hagkvæm tilboð og verði gerlegt og valdi sem minnstum töfum,“ segir Óskar.

Bendir hann á að meðal annars þurfi að horfa til þess að tímasetningar á ákveðnum áföngum skarist ekki. Nefnir hann sem dæmi framkvæmdir á Sæbraut og Miklubraut sem geti ekki verið samtímis. Þannig muni framkvæmdir við Sæbraut í stokk að hluta valda einhverjum töfum og ekki sé á það bætandi að sama sé upp á teningnum samtímis á Miklubraut. Segir hann það viðfangsefni verkfræðinga og annarra starfsmanna að finna einnig ásættanlega útfærslu fyrir umferðina við þessar stóru framkvæmdir, en ekki síður að útfæra verkefnin þannig að þau verði gerleg fyrir þá verktaka sem hreppi verkin.

Stór ár hjá Landsvirkjun gætu haft einhver áhrif

Á útboðsþinginu kom fram að stórt ár væri fram undan í útboðum hjá Landsvirkjun, en það tengist meðal annars framkvæmdum við Hvammsvirkjun, Búrfellslund og Þeystareyki. Spurður hvort að slíkar stórframkvæmdir á sama tíma og það stefni í toppa með borgarlínuframkvæmdir geti ekki valdið vanda við að fá verktaka og fá gott verð segir Óskar það geta skipt máli, en að verkin séu þó ólík.

Nefnir Óskar að Landsvirkjun sé oft með sérhæfða erlenda verktaka á sviði rafmagnsframleiðslu í fallvötnum.

„Það er ekki nema það séu miklar jarðvegsframkvæmdir, sem ekkert endilega eru hjá þeim heldur að jafnaði nokkuð blandað. En auðvitað hefur þetta alltaf einhver áhrif því bróðurparturinn er jarðvinnuverkefni hjá vel flestum í þessum stóru verkefnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka