Hefur lagaheimild til að leggja fram sína tillögu

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari segir miðlunartillöguna sitt síðasta verkfæri.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari segir miðlunartillöguna sitt síðasta verkfæri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segist ekki þurfa samþykki beggja deiluaðila til að leggja fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, líkt og hann gerði í morgun.

„Nei, það er alls ekki þannig. Ég hef skýra lagalega heimild til að leggja fram mína miðlunartillögu,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is.

„Ég kallaði þau til fundar í morgun og ráðgaðist við þau og það var ljóst að þau höfðu ýmis konar athugasemdir við þessa miðlunartillögu. Þetta er mín miðlunartillaga að endingu sem ég legg fram til lausnar þessari deilu,“ segir Aðalsteinn jafnframt og bendir á að ákvörðunarvaldið liggi síðan hjá þeim sem greiði atkvæði um tillöguna; félagsfólki Eflingar og félögum aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífisins.

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, seg­ir hins vegar ljóst að með því að leggja miðlunartillögu fram með þessum hætti hafi rík­is­sátta­semj­ari brotið ákvæði laga um stétt­ar­fé­lög og vinnu­deil­ur og Efling hefur hafnað lögmæti tillögunnar.

Tillagan frestar ekki verkföllum

Aðalsteinn segir miðlunartillöguna síðasta verkfærið í kistunni sinni. Engin önnur lausn hafi verið í sjónmáli, enda sé kjaradeilan í algjörum hnút. Ákvörðunin hafi verið tekin að vandlega íhuguðu máli.

„Það er talað um og útlit fyrir bæði verkföll og verkbönn. Það er talað um afnám afturvirkrar hækkunar, sem vegur mjög þungt, sérstaklega í skammtímasamningi. Þá finnst mér ekki eftir neinu að bíða að leggja á borð aðra lausn á þessari kjaradeilu og gefa félagsmönnum beggja aðila tækifæri til að taka afstöðu til þess. Ef þau hafna henni þá verður haldið áfram. Það er ekkert verra sem gerist en það. Ég er einfaldlega að gefa þeim færi á að greiða atkvæði um tillöguna.“

Aðspurður hvort ekki sé verið að stíga inn í deiluna með óeðlilegum hætti og jafnvel taka verkfallsréttinn af fólki, segir Aðalsteinn ekki svo vera. 

„Nei, miðlunartillagan frestar ekki verkföllum. Hún hefur ekki áhrif á það. En að sjálfsögðu, ef hún verður samþykkt þá er hún ígildi kjarasamnings og þegar það er kominn  kjarasamningur þá verða hvorki verkföll né verkbönn.“

Fjórðungur á félagasksrá þarf að fella tillöguna

Miðlunartillagan fel­ur í sér þrennt. Í fyrsta lagi að þeir sem starfa á kjara­samn­ingn­um fái sömu launa­hækk­an­ir og samið var um við 18 fé­lög Starfs­greina­sam­bands­ins. Í öðru lagi að all­ir fái aft­ur­virk­ar hækk­an­ir frá 1. nóv­em­ber og í þriðja lagi að all­ir fé­lags­menn Efl­ing­ar greiði at­kvæði um hana. 

Niðurstaða atkvæðagreiðslu um tillöguna er bindandi, en hún telst felld ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá.

Miklar líkur á að allir skaðist

Spurður hvort hann telji að þessi ákvörðun kunni að hafa einhverja eftirmála, segir Aðalsteinn:

„Auðvitað tek ég ekki svona ákvörðun nema að vandlega íhuguðu máli en ég lít einfaldlega svo á að í þessum kringumstæðum sem eru uppi þá eru miklar líkur á því að félagsfólk Eflingar verði fyrir skaða, fyrirtækin sem þau starfa hjá verði fyrir skaða og samfélagið allt verði fyrir skaða. Ég væri einfaldlega ekki að vinna vinnuna mína ef ég nýtti ekki öll þau verkfæri, og þetta er mitt síðasta verkfæri sem ég hef, til að reyna að koma deilunni upp úr þeim þeim átakafarvegi.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýndi ríkissáttasemjara í fréttum í gær og sagði hann ekki hafa nein tól til að leysa alvarleg stéttátök.

Aðalsteinn segist alltaf hlusta á gagnrýni, hann sé ekki fullkominn í sínum störfum og reyni að læra af mistökum.

„Í þessu tilviki þá átti sér stað samtal á milli deiluaðila áður en þeir komu hingað inn, síðan hafa verið fundir hér og mér fannst það alveg ljóst á síðasta fundi samningsaðila og samtölum sem ég átti við samningafólk frá báðum aðilum í kringum fundinn, að við værum fullkomlega stál í stál. Það kristallast í því að sameiginlegur fundurinn er örstuttur. Auðvitað verðum við öll að deila ábyrgð á því, og ég skorast ekki undan því, að deila ábyrgð á því með samningsaðilum að ekki hafi tekist að ná betra samtali.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert