Krefja Jón svara um ljósin

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra er m.a. spurður að því hvort hann …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra er m.a. spurður að því hvort hann aflað upplýsinga um hvort og þá af hverjum og á hvaða forsendum og grundvelli ákvörðun var tekin um að hindra blaðamenn við störf þeirra á Keflavikurflugvelli aðfaranótt 3. nóvember. Samsett mynd/mbl.is

Blaðamannafélag Íslands hefur sent Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra bréf með fyrirspurn vegna atviksins sem varð á Keflavíkurflugvelli aðfaranótt 3. nóvember, þegar fréttamenn RÚV voru hindraðir við störf þar sem þeir voru að fylgjast með því þegar hælisleitendum var vísað úr landi. 

Þetta kemur fram á vef BÍ. 

Í bréfinu, sem Flóki Ásgeirsson lögmaður skrifar fyrir hönd félagsins, er eftirfarandi spurningum beint til ráðherra sem yfirmanns lögreglumála: 

  1. „Hefur ráðherra aflað upplýsinga um hvort og þá af hverjum og á hvaða forsendum og grundvelli ákvörðun var tekin um að hindra blaðamenn við störf þeirra á Keflavikurflugvelli aðfaranótt 3. nóvember 2022 með því að beina lósabúnaði að þeim og koma þannig i veg fyrir að þeir gætu fylgst með og myndað það sem þar fór fram?

  2. Hafi ráðherra aflað upplýsinga um ofangreind atriði er óskað eftir því að þær verði afhentar Blaðamannafélagi Íslands og að ráðherra lýsi jafnframt afstöðu sinni til þess hvort ákvörðunin hafi verið i samræmi við lög og viðeigandi verklagsreglur. Er þá einkum hafður i huga réttur blaðamanna samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu til að afla og miðla upplýsingum um mikilvæg þjóðfélagsmálefni og þær kröfur um lögmæti, réttmæti og meðalhóf sem gerðar eru til takmarkana á þessum rétti í lýðræðislegu þjóðfélagi. 

  3. Hafi ráðherra ekki aflað sér upplýsinga um ofangreind atriði er óskað eftir afstöðu til þess hvort og þá hvernig það samrýmist eftirlitshlutverki ráðherra gagnvart lögreglu samkvæmt lögum nr. 90/1996 og 115/2011. Í því sambandi eru einnig hafðar i huga þær jákvæðu skyldur sem á ráðherra kunna að hvíla á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu til að beita stjórnunar- og eftirlitsheimildum sínum gagnvart undirstofnunum, þ.m.t. lögreglu, þannig að tjáningarfrelsi blaðamanna sé tryggt í framkvæmd í samræmi við kröfur þessara ákvæða.

  4. Með hliðsjón af svörum ráðherra við ofangreindum fyrirspurnum er að síðustu óskað upplýsinga um hvort og þá til hvaða aðgerða ráðherra hyggist grípa til að fyrirbyggja að atvik á borð við það sem er tilefni þessa bréfs endurtaki sig. 

Þá segir, að óskað sé eftir að svör ráðherra við ofangreindum fyrirspurnum berist undirrituðum lögmanni fyrir hönd Blaðamannafélags Íslands eigi síðar en 15. febrúar nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert