Ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari á blaðamannafundinum.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari á blaðamannafundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Hún felur í sér þrennt. Í fyrsta lagi að þeir sem starfa á kjarasamningnum fái sömu launahækkanir og samið var um við 18 félög Starfsgreinasambandsins. Í öðru lagi að allir fái afturvirkar hækkanir frá 1. nóvember og í þriðja lagi að allir félagsmenn Eflingar greiði atkvæði um hana.

Ef miðlunartillaga ríkissáttasemjara verður samþykkt í atkvæðagreiðslu er hún bindandi og nýr kjarasamningur tekur gildi.

Þessu greindi Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari frá á blaðamannafundi.

Frá fundinum í Karphúsinu.
Frá fundinum í Karphúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn sagðist hafa kynnt tillöguna fyrir samninganefndum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í morgun.

„Þessar kjaraviðræður eru í algjörum og hörðum hnút og algjörlega stál í stál. Það kristallaðist ekki síst á síðasta samningafundi,“ sagði hann og bætti við að kringumstæðurnar séu krefjandi. Verðbólga sé mikil og hagvöxtur hafi verið mikill en útlit sé fyrir að hann lækki.

Hann sagði ýmsar kringumstæður hafa gert það að verkum að kjaraviðræður hafi verið þungar og erfiðar en að alltaf hafi náðst lending nema í deilu Eflingar og SA.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari og Sólveig …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

„Áfram á ófriðarvegferð“

Aðalsteinn sagðist ekki hafa séð neina lausn í deilunni. Núna sé talað um verkföll og verkbönn og að afturvikni verði afnumin. „Það er útlit fyrir að við höldum áfram á ófriðarvegferð,“ sagði hann og nefndi að slíkt hefði áhrif á félagsmenn Eflingar, SA og íslenskt samfélag í heild sinni.

Þess vegna hafi hann ákveðið að nota eina verkfærið sem hann eigi eftir í verkfærakistunni og leggja fram miðlunartillöguna.

Deiluaðilar funduðu síðast í Karp­hús­inu á þriðju­dag og stóð sá fund­ur yfir í um eina mín­útu. Eft­ir fund­inn sagði Aðal­steinn að staðan væri þannig að mjög erfitt væri að ná sam­tali sem gæti leitt til niður­stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert