Stéttarfélagið Efling tók á móti fyrirkalli frá Héraðsdómi Reykjavíkur um afhendingu á kjörskrá til afnota við atkvæðagreiðslu miðlunartillögu ríkissáttasemjara í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Eflingar.
„Með því að leggja fram umrædda aðfararbeiðni í stað þess að sjá sóma sinn í að víkja af braut augljósra mistaka hefur embætti ríkissáttasemjara kosið að sökkva sér dýpra ofan í fen eigin drambsemi. Efling mun standa gegn lögbrotum og átroðslu embættis ríkissáttasemjara af fullum þunga, og verja samningsrétt verkafólks,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að Efling telji að ríkissáttasemjari hafi misnotað valdheimildir embættisins og kastað rýrð á það hlutleysi sem sé grundvöllur trúverðugleika embættisins.
Ekki hefur náðst í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, vegna málsins.