Samtök atvinnulífsins (SA) hafa afhent atkvæðaskrá í samræmi við fyrirmæli ríkissáttasemjara vegna atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu í kjaradeilu SA og Eflingar.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SA, en í kvöld varð ljóst að atkvæðagreiðslan mun ekki hefjast á hádegi á morgun, eins og áformað var, þar sem að Efling hefur ekki orðið við tilmælum Ríkissáttasemjara um að koma kjörskrá til þeirra.
Hefur ríkissáttasemjari því leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur.
SA héldu lokaðan félagsfund í dag þar sem Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, fór yfir miðlunartillöguna, aðdraganda hennar, næstu skref og stöðuna.
Halldór vildi ekki tjá sig frekar um hvað fór fram á fundinum er mbl.is heyrði í honum í kvöld.
Í tilkynningunni er greint frá því að Advania muni annast umsjón atkvæðagreiðslunnar, en fyrirtækið hefur m.a. annast sambærilegar atkvæðagreiðslur fyrir stéttarfélög og sambönd innan ASÍ.
Á vef Ríkissáttasemjara segir að atkvæðagreiðslan muni hefjast þegar kjörgögn berast frá Eflingu.