Skoða möguleika á eigin skipalægi

Þorlákshöfn. Keflavík er vestan bæjar.
Þorlákshöfn. Keflavík er vestan bæjar. mbl.is/Sigurður Bogi

Heidelberg Materials, dótturfélag alþjóðlega sementsrisans, er nú að skoða möguleika og hagkvæmni þess að reisa mölunarverksmiðju utan þéttbýlisins í Þorlákshöfn. Helst er litið til lóðar við Keflavík sem er vestan og sunnan við laxeldisstöðvarnar. Fjarlægðin frá Þorlákshöfn kallar á að þar verði byggt skipalægi og er fyrirtækið að skoða hvort það sé verkfræðilega framkvæmanlegt og hvort kostnaður við það rúmast innan kostnaðarramma verkefnisins.

Kemur þetta fram í minnisblaði sem Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss kynnti á fundi bæjarstjórnar í gær. Heidelberg fékk lóð við höfnina í Þorlákshöfn fyrir mölunarverksmiðju en efasemdir hafa verið um staðsetningu slíks húss þar, sérstaklega með tilliti til nálægðar við íbúðabyggð og áhrifa á íbúa. Elliði segir að bæjarstjórn hafi frá upphafi verið efins um þessa staðsetningu. Þá hafi komið fram áskoranir á íbúafundi um að aðrar leiðir yrðu skoðaðar. Fyrirtækið hafi verið að skoða möguleika á að mæta kröfum samfélagsins.

Skoðað í umhverfismati

Heidelberg er að hefja vinnu við umhverfismat vegna mölunarverksmiðjunnar. Í þeirri vinnu mun það meta staðsetningu við Keflavík samhliða byggingu á lóðunum við höfnina í Þorlákshöfn og taka ákvörðun um endanlega beiðni um staðsetningu á grundvelli þeirrar matsvinnu. Elliði ítrekar þá afstöðu bæjarstjórnar að ekki verði farið í framkvæmdir innan þéttbýlis nema að undangenginni kosningu meðal íbúa.

Heidelberg hefur hafið athuganir á því að dæla upp sandi utan við Landeyjahöfn og nýta sem hráefni í mölunarverksmiðjuna. Það mun draga úr þörf á landflutningum.

Elliði segir að það hafi komið mönnum á óvart að bygging skipalægis væri talin tæk til skoðunar. Það sé þó jákvætt og reynist þetta framkvæmanlegt opni það marga nýja kosti fyrir sveitarfélagið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert