„Kristján, þetta er brjálæði!“

Kristján og Ásdís djúpt í óbyggðum Síle.
Kristján og Ásdís djúpt í óbyggðum Síle.

Kristján Gíslason, betur þekktur sem Hringfarinn, vissi að hann ætti von á mikilli áskorun, bæði andlega og líkamlega, þegar hann lagði af stað á mótórhjóli norður Patagóníu í haust, ásamt eiginkonu sinni, Ásdísi Rósu Baldursdóttur.

„Ég bar kvíðboga fyrir þessari ferð enda vissi ég að hluti leiðarinnar, ekki síst túndran í Argentínu, yrði erfiður viðureignar vegna kulda og vinda. Fleiri en einn og fleiri en tveir höfðu sagt við mig: „Kristján, þetta er brjálæði!“ Ég hafði líka samband við Ásdísi og bað hana um að hitta mig norðar af þessum sökum. Þetta yrði mikið streð. Það vildi hún hins vegar ekki enda myndi hún þá missa af þjóðgörðunum á leiðinni. Ásdís er svoddan nagli! Við settumst því saman á hjólið í Punta Arenas.“

Í Síle ríkir fegurðin ein.
Í Síle ríkir fegurðin ein.


Það er meira en að segja það að leggja svona erfitt ferðalag á sig. Spænskur kunningi Kristjáns hreinlega skildi eftir að hafa farið með eiginkonu sinni í sambærilegt ferðalag. Þau voru nýgift. „Til allrar hamingju stöndum við Ásdís á sterkari merg en þau en þetta reyndi samt sem áður á okkur, bæði andlega og líkamlega. Einn daginn þurfti ég til dæmis bara að liggja í rúminu til að jafna mig. Ásdís varð sem betur fer aldrei hrædd, sem hefði auðvitað gert illt verra.“


Fallegasta land í heimi

Fegurð svæðisins skyggði þó á erfiðleikana. „Ég er búinn að fara víða um dagana en eftir þessa ferð held ég að ég geti með góðri samvisku sagt að Síle sé fallegasta land sem ég hef komið til og Suður-Ameríka fallegasta heimsálfan. Þetta er eins og Ísland á sterum. Það er auðvitað erfitt að bera ólík lönd og heimsálfur saman,“ heldur hann áfram, „en fjölbreytileikinn þarna er óvenju mikill. Suður-Ameríka spannar ákaflega breitt svið.“

Kristján á „enda veraldar“ í Ushuaia. ​
Kristján á „enda veraldar“ í Ushuaia. ​


Þyrluferð inn í óbyggðir Síle sló allt út. Kristján segir það hafa verið ótrúlega sterka upplifun að fljúga yfir frumskóga, fossa, stöðuvötn og fjöll en flugmaðurinn, Stefan, tyllti sér nokkrum sinnum niður á leiðinni og þau stigu út úr þyrlunni. „Fegurðin þarna er ótrúleg og ég hef sjaldan eða aldrei fengið eins sterka tilfinningu fyrir náttúrunni á nokkrum stað. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég segi frá þessu,“ segir Kristján og strýkur yfir handlegginn. „Enda sagði Stefan mér að móðir hans hefði brostið í grát þegar hann kom með hana þarna.“

Nánar er rætt við Kristján í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert