Óraunverulegt þótt hann muni hvern andardrátt

Borgþór Eydal Pálsson á heimili sínu á Bröttugötunni.
Borgþór Eydal Pálsson á heimili sínu á Bröttugötunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hús Borgþórs Eydals Pálssonar og Guðbjargar Októvíu Andersen heitinnar við Bröttugötu í Vestmannaeyjum fór ekki undir hraun þegar eldur spýttist upp úr jörðinni við byggðina í Heimaey árið 1973.

Fimm áratugum síðar býr Borgþór enn í húsinu og hefur verið þar frá árinu 1971. Húsið hafði hlutverki að gegna í björgunarstarfinu sem fylgdi gosinu.

Borgþór er á áttugasta og öðru aldursári en er mjög minnugur. Hann bauð blaðamanni og ljósmyndara mbl.is inn í stofu á Bröttugötunni mánudaginn 23. janúar 2023 þegar akkúrat hálf öld var liðin frá því eldgosið hófst. 

Hann horfir um öxl, fimmtíu ár aftur í tímann. „Fyrr um kvöldið var ég að lesa fyrir tvær dætur mínar. „Hættið þessum látum,“ sagði ég við þær.

„Við vorum ekki að hreyfa okkur,“ svöruðu þær undrandi og þá áttaði ég mig á að komið hafði jarðskjálfti, segir Borgþór en um nóttina hrökk hann upp við að legið var á dyrabjöllunni. 

Það var bæði hringt og bankað harkalega. Ég ætlaði að bregða mér í sloppinn en það var svo mikið bankað að ég fór á náttfötunum til dyra. Þá stóðu nágrannahjón okkar á tröppunum og þau þurftu eiginlega ekki að segja tíðindin því fyrir aftan þau blasti eldrauður himinninn við. 

Hér gefur að líta svokallað fararleyfi fyrir Borgþór til Vestmannaeyja …
Hér gefur að líta svokallað fararleyfi fyrir Borgþór til Vestmannaeyja árið 1973. Íbúar í Eyjum þurftu að fá slík leyfi um tíma ef þau vildu fara heim til Eyja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgþór segir hann og Októvía hafa verið furðu róleg um nóttina þegar gosið var hafið. 

Þegar gosið byrjaði tók maður eftir því að fólk var skelkað, og sumir voru hræddir, en ég myndi ekki segja að maður hafi orðið var við mikinn ótta. Og það voru engin hræðsluóp eða neitt slíkt. Sjálfur varð ég aldrei hræddur og konan var enn rólegri. Hún vildi ekki fara og fór bara að laga kaffi. Þegar hún ætlaði að hringja í ættingjana uppi á landi og segja þeim hvers kyns var þá sagði ég henni að vera ekki að vekja fólkið um hánótt. Því er nú ver og miður en ég hugsaði bara ekki lengra en það og fólkið var í angist morguninn eftir þegar enginn náði í neinn. Almennt séð var fólk yfirvegað og ég gæti trúað því að fyrir því séu tvær ástæður. Annars vegar sú að við höfðum kynnst eldgosi og hins vegar sú að þegar maður var að alast upp í Eyjum þá fórust einn til tveir bátar á hverjum vetri. Fólk hafði því kynnst áföllum. 

Athyglisverðar draumfarir

Borgþór kveið því hins vegar að vekja elstu dótturina og segja henni hvers kyns var.

Eitt fannst mér athyglisvert í kringum þetta allt saman. Elsta dóttir okkar var tíu ára gömul og hún var afskaplega eldhrædd. Ef til vill tengdist það Surtseyjargosinu. Hún fékk martraðir á nóttinni og hafði dreymt um langa hríð að kveikt væri í húsinu okkar. Hana dreymdi sem sagt þennan sama draum aftur og aftur. Við hjónin kviðum því mjög fyrir því að vekja hana við þessar aðstæður en hún var mjög róleg þegar á reyndi. Eftir þetta hvarf þessi hræðsla hjá henni á næturnar, rifjar Borgþór upp og segir að sér hafi alltaf fundist þessar draumfarir dótturinnar athyglisverðar. 

Þótt hjónin hafi fyrst um sinn ekki ætlað sér að fara þá fóru þau af eyjunni um nóttina með dæturnar eins og flestir aðrir. 

Tengdafaðir minn átti bát, Danska-Pétur, og bróðir konunnar, Joel, var tekinn við sem skipstjóri. Konan sagðist ekki ætla að fara neitt og þetta yrði allt í góðu. En það tókst að fá okkur með og enduðum við í Menntaskólanum við Hamrahlíð áður en skyldfólk hennar í Reykjavík kom og náði í okkur,“ segir Borgþór en fljótlega var hann kominn aftur til Eyja og tók þátt í björgunarstarfinu. Húsið sem hann býr í stendur hátt og skemmdist lítið.

Iðnaðarmenn gistu í stofunni

Fyrir vikið var húsið nýtt meðan á björgunarstarfinu stóð og var margt um manninn því menn fengu að gista á dýnum í stofunni. 

„Menn sem voru að vinna hérna fengu að gista. Til dæmis iðnaðarmenn og margir þeirra voru pípulagningarmenn. Konan var einnig að vinna með mér hérna í mánuð,“ segir hann, og um tíma varð heimilið að hálfgerðri símstöð. 

Húsið var eitt þeirra fáu þar sem síminn virkaði alltaf en símstöðin í bænum lokaði út af eiturgufunum. Í staðinn var lítil símstöð í gagnfræðaskólanum og þar var einungis eitt lítið borð. Ég leyfði öllum að hringja en margir komu af sjónum og stoppuðu hérna eina nótt svona hálfum mánuði eða mánuði eftir gos. Þá leyfði ég þeim að hringja þar sem ekki var auðvelt að komast í síma. 

Bráðabirgðasímaskrá fyrir Vestmannaeyjar gosárið 1973. Borgþór leyfði fólki að hringja …
Bráðabirgðasímaskrá fyrir Vestmannaeyjar gosárið 1973. Borgþór leyfði fólki að hringja meðan á björgunarstarfinu stóð þar sem ekki voru margir nothæfir símar á eyjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgþór var vélstjóri en fór síðar að vinna fyrir Viðlagasjóð og gerði til að mynda við jarðýtur og gröfur. Var einnig í samninganefnd sem samdi við Viðlagasjóð. 

Þessar símhringingar voru gjarnan upp á land og það kostaði sitt á þessum árum. Þegar menn spurðu hvort þeir ættu ekki að borga fyrir símhringingarnar þá sagði ég þeim að ég væri löngu farinn á hausinn ef ég þyrfti að borga fyrir þessar hringingar. Húsið var náttúrulega opið og ég leyfði öllum að hringja sem báðu um það enda voru fá hús með síma. Viðlagasjóður hefur væntanlega borgað á endanum. Ekki gerði ég það alla vega, segir Borgþór og glottir.  

Ég ætlaði nú ekki að vera hérna allan þennan tíma eftir gosið, heldur ætlaði ég fyrst og fremst að hjálpa til við að bjarga Völundi, fyrirtækinu sem ég var að vinna hjá. Völundur var vélsmiðja á tveimur hæðum og þar byrjaði ég að læra þegar vélsmiðjan opnaði árið 1959. Ég vann alltaf hjá þeim og þeir stofnuðu Skipalyftuna síðar og ég var verkstjóri þar. 

Á minningar frá Heklugosinu 1947

Borgþór fæddist austur á Héraði en ekki leið á löngu þar til farið var með hann til Vestmannaeyja og þar hefur hann verið síðan. 

Pabbi er héðan og mamma frá Reyðarfirði. Ég er fæddur rétt hjá Egilsstöðum því mamma var hjá mömmu sinni þegar hún átti mig. Ég kom hingað tveggja mánaða og hef verið hér upp frá því,“ segir Borgþór og þekkir ekki annað en að vera á Bröttugötu. Þar ólst hann upp og býr þar enn eins og áður segir en eiginkona hans, Guðbjörg Októvía Andersen, lést á síðasta ári.

Skemmtilegt er að hlýða á Borgþór rifja upp. Á áttugasta …
Skemmtilegt er að hlýða á Borgþór rifja upp. Á áttugasta og öðru aldursári getur hann rifjað upp samtöl frá því í barnaskóla eins og þau hafi átt sér stað í gær eða fyrradag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Minnist Borgþór þess þegar hann var að alast upp að fólk í Eyjum hafi talað mikið um að byggðin væri á eldstöð?

Ég man vel eftir Heklugosinu 1947 vegna þess að þegar ég vaknaði þá var algert myrkur jafnvel þótt það væri dagur. Það birti ekki þann daginn og ég skildi þetta ekki sex ára gamall. Þegar maður fór út þá fékk maður lítil gleraugu, sem líkjast sundgleraugum, til að verja augun. Ég man eftir því að eldgos barst eitt sinn í tal þegar við vorum í leikfimi í skólanum. Þá sagði Friðrik Gestsson sem var þá íþróttakennari að við þyrftum ekki neinar áhyggjur að hafa. Meira en fimm þúsund ár væru síðan Helgafellið gaus. Mér er þetta alltaf minnisstætt og þegar Surtsey fór að gjósa 1963 þá vaknaði maður upp við svolítið vondan draum. En maður setti þessi eldgos samt aldrei í samhengi við eldgos í byggð enda hugsaði maður ekki um svona lagað frá degi til dags.

Líkt og dreginn væri út rennilás

Þykir Borgþóri óraunverulegt að liðin sé hálf öld frá því gosið hófst á Heimaey? 

Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér vera styttra síðan þetta gerðist. Það liggur við að ég muni hvern andardrátt þessa gosnótt en ég hef reyndar alltaf verið mjög minnugur. Þrátt fyrir það finnst mér óraunverulegt að þetta hafi gerst. Eldrauður himinn blasti bara við þegar maður leit út.

Þegar maður fylgdist með gosinu þá fannst manni eldurinn fyrst vera á einum stað en síðan var eins og dreginn væri út rennilás þegar eldurinn kom upp úr jörðinni á stærra svæði. Ég fór ekki upp eftir því ég sá þetta alveg nógu vel heiman frá mér en auk þess þekkti maður eldgos ágætlega eftir að hafa verið á sjó í kringum Surtsey,“ segir Borgþór Eydal í samtali við mbl.is.  




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert