Frosti Logason fjölmiðlamaður segist aldrei hafa gengist við öllum ásökunum fyrrverandi kærustu sinnar, Eddu Pétursdóttur, í færslu sem hann birt hefur á Facebook síðu sinni, en yfirlýsinguna má lesa í heild sinni neðst í fréttinni.
Frosti og eiginkona hans, Helga Gabríela Sigurðardóttir kokkur, hafa verið talsvert milli tannanna á fólki síðustu daga. Ástæðan er sú að Frosti viðhafði ummæli í nýjum hlaðvarpsþætti sínum, sem þóttu hvetja til ofbeldis gegn grínistanum Stefáni Ingvari Vigfússyni.
Vakti það upp umræðu vegna ásakana fyrrverandi kærustu hans, um andlegt ofbeldi af hans hálfu. Í mars í fyrra fór Frosti í ótímabundið leyfi frá störfum sem dagskrárgerðar- og sjónvarpsmaður á Stöð 2 eftir umræddar ásakanir. Hann birti á þeim tíma færslu þar sem hann kvaðst taka ábyrgð á gjörðum sínum.
Helga Gabríela kom Frosta til varnar á samfélagsmiðlum í gær með tilheyrandi fjaðrafoki. Birti hún svo færslu þar sem hún lýsti sinni upplifun af því „þegar fyrrverandi kærasta eiginmanns míns ákvað að koma opinberlega fram með einhliða frásögn sína af sambandi þeirra sem lauk fyrir 10 árum.“
Þótti einhverjum þessi færsla ganga í berhögg við yfirlýsingu Frosta á sínum tíma, vegna ásakananna.
Frosti segist nú hafa orðið var við misskilning hjá fólki sem ekki þekki til mála. Hann sé til kominn vegna fyrirsagna fjölmiðla í kjölfar yfirlýsingar hans í mars í fyrra.
„Þessar fyrirsagnir gáfu í skyn að mistök mín hafi verið meiri en raun ber vitni meðal annars vegna þess að yfirlýsing mín var ekki nákvæmari en svo að það mátti misskilja hana. Þar sögðu einhverjir að Frosti Logason hefði gengist við ásökunum Eddu Pétursdóttur. “
Frosti áréttar að hann hafi í tilkynningunni sagst taka fulla ábyrgð á eigin hegðun og að hann rengdi ekki að henni hafi liðið illa vegna þess sem hann gerði eftir að samband þeirra lauk.
„En svo að það sé ítrekað hér þá hef ég sem sagt viðurkennt og beðist afsökunar á að hafa sent óviðeigandi tölvupósta eftir að sambandi okkar lauk. Annað gerði ég ekki og ég hef ekki gengist við neinu öðru. Ég lagði aldrei hendur á fyrrverandi kærustu mína, beitti hana ekki andlegu ofbeldi á meðan á sambandi okkar stóð og ég gerði alls ekki neinar leynilegar upptökur af kynlífi okkar eins og haldið er fram.“
Hann kveðst hafa einlægan sáttarvilja og enn bera þá von í brjósti að Edda vilji einhvern tíma ljúka málinu á þann hátt að báðir aðilar geti gengið sáttir frá því.
Yfirlýsinguna í heild má lesa hér að neðan.