Nýr heitavatnstankur verður reistur á Reynisvatnsheiði á þessu ári, en honum er meðal annars ætlað að bregðast við aukinni heitavatnsþörf sem hefur komið í ljóst á höfuðborgarsvæðinu í kuldatíðinni í vetur. Á tankurinn að gagnast fyrir alla Reykjavík og önnur svæði þar sem Veitur eru með starfsemi.
Geymirinn verður af sömu stærð og þrír aðrir geymar sem eru nú þegar á heiðinni, en þessi nýi mun í raun loka ferningnum sem tankarnir munu mynda. Verður tankurinn með 32 metra þvermál og 10 metra hár og mun hann rúma 9.000 rúmmetra af vatni. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina hleypur á um 600 milljónum.
Heimir Hjartarson, sérfræðingur í fjárfestingum hitaveitu hjá Veitum, segir í samtali við mbl.is að verið sé að auka svigrúm í kerfinu með þessari framkvæmd. „Eftir svona langt kuldatímabil í vetur kom í ljós þörf fyrir bættar rekstraraðstæður fyrir vatn frá virkjun. Við erum að auka bufferinn í tönkunum þannig að hægt sé m.a. að bregðast betur við bilunum,“ segir hann.
Jafnframt segir hann tankinn bæta möguleika Veitna til að bregðast við háum toppum í notkun. Vísar hann m.a. til þess að sveiflan sé oft mikil seinni part dags, en svo um nætur fyllast tankarnir aftur.
Framkvæmdin var á áætlun hjá Veitum að sögn Heimis, en aðstæðurnar í vetur urðu til þess að fyrirtækið ákvað að flýta þeim um eitt eða tvö ár. Segir hann að áætlað sé að fara í útboð fljótlega og að tankurinn verði reistur fyrir næsta vetur og muni þar með gagnast sem viðbót við kerfið komi aftur til harðs vetur eftir ár.
Tveimur af sex heitavatnstönkum í Perlunni var lokað á sínum tíma. Spurður hvort ekki hefði verið hægt að nýta þá núna segir Heimir þá ekki hafa sömu virkni fyrir kerfið. Með því að hafa tankana á Reynisvatnsheiði þar sem þeir eru fyrsta snerting við höfuðborgarsvæðið þá nýtast þeir best fyrir allt svæðið, en ef taka ætti aftur í notkun geyma í Perlunni þá myndu þeir aðeins nýtast fyrir það svæði sem liggur þaðan, í þessu tilfelli aðallega fyrir Vesturbæinn. „Þá ertu ekki að sinna öllu höfuðborgarsvæðinu,“ segir Heimir.