Óvissustig vegna veðurs á morgun

Ekkert ferðaveður er á landsbyggðinni á morgun.
Ekkert ferðaveður er á landsbyggðinni á morgun. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna veðurs á Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og Suðurlandi á morgun.

Appelsínugular viðvaranir verða í gildi á þessum svæðum á mismunandi tímum, allt frá klukkan 14.00 á morgun til klukkan 08.00 á þriðjudaginn. 

Boðað hefur verið til samráðsfundar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í fyrramálið, þar sem farið verður yfir stöðuna og mögulegt viðbragð á þeim svæðum þar sem spáin er slæm, að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum. 

Ekkert ferðaveður

Ekkert ferðaveður verður á Suðausturlandi, Vestfjörðum, Faxaflóa og Suðurlandi á morgun, mánudag og fram til þriðjudagsmorguns. Miklar líkur eru að veðrið muni hafa áhrif á samgöngur.  Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með færð á vegum og veðrinu.

Ef spár ganga eftir má gera ráð fyrir að samhæfingarstöð almannavarna verði virkjuð á morgun, mánudag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert