Rannsókn stendur enn yfir vegna manndrápsmálanna tveggja, annars vegar á Ólafsfirði og hins vegar á Blönduósi. Vonir voru bundnar við það að unnt yrði að ljúka rannsókn nú um mánaðarmótin en ljóst er að það mun ekki takast.
Að sögn Bergs Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns yfir rannsóknardeild hjá embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, hefur staðan lítið breyst frá því að mbl.is fjallaði síðast um rannsóknina, en staða sakborninga er til að mynda sú sama.
Þann 10. janúar greindi mbl.is frá því að lögreglan væri háð því að gögn frá öðrum stofnunum berist henni áður en lokavinna rannsóknanna gæti átt sér stað. Meðal annars var beðið eftir endanlegum skýrslum um niðurstöðu rannsókna sem framkvæmdar voru við réttarkrufningu í málunum.
Að morgni þriðja október í fyrra voru fjögur handtekin eftir að tilkynning barst um að karlmaður hafi verið stunginn með eggvopni á Ólafsfirði. Þrjú þeirra hafa réttarstöðu sakborninga; tveir karlmenn og ein kona. Maður sem grunaður er um að hafa orðið manninum að bana var látinn laus í nóvember.
Tveir hafa réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins á Blönduósi frá því ágúst í fyrra, eða maðurinn sem varð fyrir árásinni og sonur hans, sem er talinn hafa ráðið niðurlögum árásarmannsins. Tvennt lést í árásinni, eiginkona mannsins og árásarmaðurinn sjálfur, sem hafði þá náð að skjóta á hjónin með fyrrgreindum afleiðingum.