Miklar verðhækkanir dynja á knattspyrnuunnendum nú í byrjun árs. Tvær sjónvarpsstöðvar hafa hækkað áskriftarverð og munar þar mest um verðhækkun á enska boltanum. Áskrift að Símanum sport hækkar nú um mánaðamótin um 1.600 krónur á mánuði, var 4.900 krónur en verður hér eftir 6.500 krónur. Þessi hækkun nemur 33%.
Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans, segir að umrædd verðhækkun sé vegna þriggja samverkandi þátta. „Kostnaður vegna samninga við Premier League hefur hækkað, veiking krónunnar hefur mjög neikvæð áhrif og annar kostnaður t.d. aðföng, laun, útsendingarkostnaður o.fl. hefur hækkað.“
Viaplay tilkynnti á dögunum um verðhækkun á Viaplay Total-pakkanum sem felur meðal annars í sér útsendingar frá ýmsum knattspyrnuleikjum. Verðið hækkar úr 2.699 krónum á mánuði í 2.999 krónur eða um 11%.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.