Leiðindaveður mun ganga yfir stærstan hluta landsins síðar í dag, en gular og appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir alla landshluta utan Norðausturs- og Austurlands. Fyrsta viðvörunin tekur gildi á hádegi á Suðurlandi, en klukkan tvö bætist Faxaflói og Suðausturland við og viðvörun á Suðurlandi verður appelsínugul.
Er það ört dýpkandi lægð sem nálgast landið úr suðvestri sem orsakar veðurhaminn, en það mun blása úr austri og verða snjókoma víða. Varar Veðurstofan við að ekkert ferðaveður verði á sunnan- og vestanverðu landinu.
Verstu veðri er spáð í Mýrdal og undir Eyjafjöllum, en þar má búast við ofsaveðri þar sem hviður geta verið á bilinu 40 til 55 m/s milli klukkan 14 og 18, en litlu síðar verður sambærilegt veður í Öræfum.
Hér fyrir neðan má fylgjast með lægðinni ganga yfir landið, en búist er við því að lægðin fjarlægist landið á morgun og smám saman dragi úr vindi.