Mál hjúkrunarfræðings á dagskrá í næsta mánuði

Hjúkrunarfræðingurinn starfaði á Landspítalanum.
Hjúkrunarfræðingurinn starfaði á Landspítalanum. mbl.is/Unnur Karen

Aðalmeðferð í máli þar sem hjúkrunarfræðingur er ákærður fyrir manndráp í opinberu starfi verður í lok næsta mánaðar. Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Hjúkrunarfræðingurinn var starfandi á geðdeild Landspítalans og er ákærður fyrir að hafa svipt konu á sex­tugs­aldri lífi með því að hafa þröngvað ofan í hana nær­ing­ar­drykk á meðan henni var haldið niðri með þeim afleiðingum að hún kafnaði.

Við fyrirtökuna í morgun kom meðal annars fram að ekki hafi verið ákært á grundvelli endanlegrar matsgerðar heldur á grundvelli bráðabirgðamatsgerðar, en endanleg matsgerð liggur þó fyrir í dag.

Eitthvað virtust dagsetningar á matsgerðinni vera á reiki og var það nokkuð til umræðu við þinghaldið. Ekki hefur gefist mikill tími til gagnaöflunar, en frekari gagna verður aflað fyrir næstu fyrirtöku. Í kjölfarið er svo gert ráð fyrir að aðalmeðferð málsins verði 24. febrúar.

Verjandi ákærðu í málinu, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hafði óskað eftir samantekt af gögnum sem fylgdu til saksóknara en þeirri beiðni var synjað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert