Samhæfingarmiðstöð almannavarna virkjuð

Samhæfingarmiðstöð almannavarna hefur verið virkjuð.
Samhæfingarmiðstöð almannavarna hefur verið virkjuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurspár virðast vera að ganga eftir og verður samhæfingarstöð almannavarna virkjuð á hádegi. Viðbragðsaðilar gera sig klára undir sólarhringsóveður um allt land en eitt stærsta verkefnið fram undan eru mögulegar samgöngutruflanir sem verða vegna veðurs. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is.

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna óveðursins sem á að standa í dag og nótt og gengur ekki yfir fyrr en á morgun. 

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular og appelsínugular viðvaranir og þykir líklegt að veðrið hafi áhrif á samgöngur. Erfiðum akstursskilyrðum er spáð víða um land og geta vegir lokast með stuttum fyrirvara.

Margir vegir verða á óvissustigi, þar á meðal vegirnir um Hellisheiði og Þrengsli sem verða á óvissustigi á milli klukkan 11 í dag og fram til klukkan 7 í fyrramálið. Þá er vegurinn undir Hafnarfjalli á óvissustigi frá klukkan 12 á hádegi og fram til miðnættis.

Vegagerðin og almannavarnir fylgjast einnig náið með Reykjanesbrautinni.

Fólk er hvatt til að vera sem minnst á ferðinni og einnig fylgjast með færð á vef Vegagerðarinnar og veðurspám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert