Það hafa komið upp ýmis atvik þar sem konur í stjórnmálum, þá sérstaklega ungar konur, hafa lent í orðræðu eða þurft að sæta spurningum sem kollegar þeirra úr karlahópi þurfa ekki að gera. Í ítarlegu viðtali við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem birt var í SunnudagsMogganum um nýliðna helgi var hún meðal annars spurð út í fyrri ummæli sín um að sömu reglur gildi ekki alltaf um ungar konur í stjórnmálum og karla – og það hvort að hún hefði sjálf fundið fyrir þessu.
„Það er dálítið erfitt fyrir mig að svara, því ég hef ekki samanburðinn,“ segir Áslaug Arna og brosir.
Hún bætir því við að hún hafi þó stundum upplifað að tilvera hennar sé dálítið annars konar en fólks á hennar aldri sem hafi stofnað heimili og eignast börn.
„Ég hef helgað líf mitt stjórnmálum öll mín fullorðinsár og hef hvorki eignast maka né börn. En ég á blessunarlega frábæran pabba og systkini og lítinn bróðurson sem býr í sama stigagangi og ég. Sá litli er það besta sem gerðist í persónulegu lífi mínu síðastliðið ár. En kannski einmitt vegna þess að ég er ung kona fæ ég spurningar frá fjölmiðlafólki sem karlar fengju ekki.“
Þá rifjar Áslaug Arna upp að hún hefði nýlega verið í viðtali en þegar viðtalinu lauk spurði fréttamaðurinn hana hvort að hún ætlaði ekki að fara að verða ófrísk.
„Ég var svo hissa að ég kom varla upp orði og þá bætti hann því við að tíminn ynni ekki með mér. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að líkamsklukkan tifar en ég biðst undan því að fá ábendingar um það frá öðrum en mínum nánustu,“ segir Áslaug Arna.
„Vinkonur mínar benda mér óhikað, í gamni og alvöru, á að nota nýjustu vísindi og tækni til að láta frysta nokkur egg og eiga til góða þegar rétta tækifærið gefst. Auðvitað hef ég hugsað út í að gera það en það hvort og þá hversu mikið ég opinbera slíkt ferli verð ég að fá að gera á mínum forsendum. Það eru spurningar um þessi viðkvæmu einkamál sem karlar fá síður en konur. Þeir fá meira svigrúm til að eiga sitt einkalíf á sama tíma og þeir byggja upp sinn stjórnmálaferil. Mér finnst mikilvægt að ég og aðrar konur fáum að eiga okkar einkalíf samhliða stjórnmálaferlinum því verstu skilaboðin eru þau að konur verði að velja á milli einkalífs og stjórnmála.“