Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist í samtali við mbl.is bjartsýn á að af fyrirhuguðum verkföllum félagsmanna stéttarfélagsins verði þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins (SA) ætli að höfða mál gegn Eflingu fyrir Félagsdómi.
„Okkur hefur borist þessi stefna. Málsástæður sem að Samtök atvinnulífsins ætla að styðjast við í þessari stefnu eru að eftir að ríkissáttasemjari lagði fram hina ólöglegu miðlunartillögu sína þá hafi hún samstundis orðið til þess að vinnudeilu á milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hafi verið lokið,“ segir Sólveig og bætir við að um framúrstefnulega túlkun sé að ræða.
Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í deilunni á fimmtudag og hefur nú leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Efling hefur ekki skilað inn kjörskrá fyrir atkvæðagreiðslu félagsmanna um tillöguna.
Fyrsta verkfall félagsmanna Eflingar var samþykkt í gær hjá starfsmönnum Íslandshótela og hefst að óbreyttu næsta þriðjudag, þann 7. febrúar.
Sólveig segir að samninganefnd Eflingar hafi unnið víðtæka og langa áætlun um verkfallsboðanir.
Í hádeginu tilkynnti Efling verkfallsboðunin sem nær til félagsmanna sem starfa hjá hótelum Reykjavík Edition og Berjaya (áður Icelandair hotels) og hjá Samskip, Olíudreifingu og Skeljungi.
Um er að ræða um 570 félagsmenn og hefst atkvæðagreiðsla klukkan 12 á föstudag. Henni lýkur klukkan 18 á þriðjudag 7. febrúar og er áætlað að verkfall hefjist á hádegi 15. febrúar.