„Grafalvarlegt mál fyrir þjóðarhagsmuni Íslands“

Verkföllin eru fyrirhuguð um miðjan mánuðinn.
Verkföllin eru fyrirhuguð um miðjan mánuðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er grafalvarlegt mál fyrir þjóðarhagsmuni Íslands ef olíubílstjórar fara í verkfall um miðjan febrúarmánuð, eins og stéttarfélagið Efling hefur boðað.

Þetta segir Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skeljungs.

Atkvæðagreiðsla um verkföll félagsmanna Eflingar sem starfa annars vegar hjá hótelunum Reykjavík Edition og Berjaya og hins vegar hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi hefst á föstudaginn. Verði boðun verkfallanna samþykkt hefst ótímabundin vinnustöðvun 15. febrúar.

Þórður Guðjónsson.
Þórður Guðjónsson. Ljósmynd/Aðsend

Fáir átti sig á hversu stórt það sé

Spurður út í fyrirhugað verkfall segir Þórður að það snerti Skeljung minna en íslenskt samfélag í heild sinni. „Þetta snertir íslenskt samfélag gríðarlega mikið því að ef við horfum í orkunotkun Íslendinga og tökum hitaveituna vegna húshitunar frá, þá eru 40% af orkunotkun Íslendinga knúin áfram af olíu,“ segir Þórður.

„Auðvitað er það grafalvarlegt mál fyrir þjóðarhagsmuni Íslands að setja olíubílstjóra í verkfall. Ég held að fáir átti sig á því hversu stórt það er,“ bætir hann við.

Rúmlega 20 manns sem eru í Eflingu keyra olíubíla fyrir Skeljung.

Olíubíll frá Skeljungi.
Olíubíll frá Skeljungi. Ljósmynd/Aðsend

Sækja um allar undanþágur

Inntur eftir því hvernig fyrirtækið hyggst bregðast við verkfallinu segir Þórður að sótt verði um allar mögulegar undanþágur sem snúi að þjóðarhagsmunum og öryggi Íslands. Nefnir hann sem dæmi afgreiðslu fyrir sjúkraflug, Landhelgisgæsluna, sjúkrabíla, slökkviliðsbíla og lögreglubíla.

„Við munum sækja um allar undanþágur sem hægt er að sækja um til þess að mæta þessu til að stofna ekki lífi og limum Íslendinga í hættu.“

Spurður segir hann verkfallsaðgerðir Eflingar ekki hafa komið honum á óvart. Þær snúist fyrst og fremst um að valda sem mestum skaða.

Bensínstöð Skeljungs við Vesturlandsveg.
Bensínstöð Skeljungs við Vesturlandsveg. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert