„Það er öllum ljóst að það er hægt að vinna mikið tjón með þessu,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, um fyrirhugað verkfall Eflingar um miðjan febrúarmánuð.
Rúmlega 20 félagsmenn í stéttarfélaginu keyra olíubíla fyrir Olíudreifingu.
„Það sjá allir að þegar eldsneyti og flutningar frá Örfirisey stöðvast verður mikið tjón úti í samfélaginu,“ bætir hann við, en þar er olíubirgðastöð fyrirtækisins staðsett.
Hörður segir málið háalvarlegt en ótímabært sé að tjá sig frekar um það á þessu stigi. Enn eigi eftir að skera úr um lögmæti verkfallsaðgerða Eflingar hjá Félagsdómi, auk þess sem niðurstaða atkvæðagreiðslu komi ekki fyrr en eftir helgi.
Kjörstjórn Eflingar hefur boðað til atkvæðagreiðslu um frekari verkföll félagsmanna sem starfa hjá hótelum Reykjavík Edition og Berjaya (áður Icelandair hotels) og hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi.
Atkvæðagreiðslurnar hefjast á hádegi á föstudaginn og munu standa til klukkan 18 á þriðjudaginn eftir viku. Verði boðun verkfallanna samþykkt hefst vinnustöðvun á hádegi 15. febrúar og er hún ótímabundin.