„Halda allri forgangsorku í Vestmannaeyjum gangandi“

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Sigurður Bogi

Rafmagn í Vestmannaeyjum gengur enn á varafli. Auk þess er Vestmannaeyjastrengur 1 í rekstri vegna bilunar á Vestmannaeyjastreng 3, sem flytur alla jafna rafmagn til Vestmannaeyja.

Þetta staðfestir Stein­unn Þor­steins­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Landsnets, í sam­tali við mbl.is. 

Mæla strenginn í dag

„Þannig að við erum að ná að halda allri forgangsorku í Vestmannaeyjum gangandi,“ segir hún.

Steinunn segir enn óvíst hvað olli biluninni en fyrsta skoðun og greining í gær benti til þess að bilunin væri í tengimúffu á landi. Þá er ekki hægt að segja til um hvort óveðrið í gær hafi valdið biluninni. 

Í dag verður strengurinn mældur til þess að staðfesta hvar bilunin er og umfang hennar. Að sögn Steinunnar verður það líklega ljóst síðdegis. Á meðan verður keyrt á varafli og notast við Vestmannaeyjastreng 1 svo Vestmannaeyingar ættu ekki að þurfa að óttast frekara rafmagnsleysi. 

Um klukkan 16 í gær leysti Rimakostlína 1 út sem olli rafmagnsleysi í Vík og Landeyjum. Steinunn segir að bilunin í Vestmannaeyjastreng 3 hafi líklega valdið því að hún leysti út, ekki öfugt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert