Lægðir á leiðinni og mjög viðkvæm staða í spám

Vindaspáin fyrir hádegi á fimmtudag. Fleiri lægðir eru væntanlegar.
Vindaspáin fyrir hádegi á fimmtudag. Fleiri lægðir eru væntanlegar. Kort/Veðurstofa Íslands

„Nú er hvað illviðrasamasti tími ársins, en á milli 10. janúar og 20. febrúar ár hvert er lægðagangur á Íslandi að meðaltali stríðastur,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.

Trausti birti áhugaverða hugleiðingu um veðurfyrirbærið Stóra-Bola á bloggsíðu sinni. Í samtali við mbl.is segir hann okkur öðru hvoru lenda í graut nokkuð skæðra lægða á þessum árstíma. Lægðin í gær hafi verið dæmi um það.

„Það eru fleiri lægðir væntanlegar og þær gætu komið með svona tveggja til þriggja daga millibili en það er töluvert mikil óvissa um bæði staðsetningu og afl þeirra en þeir þættir ráðast af ýmsum smáatriðum fyrir vestan land.“

Trausti Jónsson naut vinsælda þegar hann flutti landanum veðurfréttir á …
Trausti Jónsson naut vinsælda þegar hann flutti landanum veðurfréttir á skjánum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lægð aðfaranótt fimmtudags og önnur á föstudag

Trausti segir reiknilíkön vera sammála um aðalatriðin en að smáatriðin séu enn mjög óráðin.

„Það á að koma lægð hingað á aðfaranótt fimmtudags og önnur á seinni hluta föstudags en mér sýnist að þessar tvær megin reiknimiðstöðvar, Evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan, séu mjög ósammála um hvort seinni lægðin fari vestan eða austan fyrir land. Það fylgir því afskaplega ólíkt veður hvort verður.

Eins eru reiknimiðstöðvarnar ekki sammála um það hversu margar lægðirnar verða um helgina og í næstu viku eða hversu öflugar þær gætu orðið en þetta er mjög viðkvæm staða,“ segir Trausti.

Fylgjast þurfi vel með

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að við það að fá svona kalt loft nærri og í veg fyrir hlýtt og milt loft yfir Atlantshafinu herði á suðvestanáttinni í háloftunum.

„Við þær aðstæður myndast bæði lægðir frekar og þær verða einnig dýpri en það þarf allt að hitta saman. Það verður að vera til staðar hringdreifing í háloftunum sem kemur keðjuverkuninni af stað við dýpkun lægðarinnar og stefnumót heita og kalda loftsins þarf að ganga upp ef úr á að verða sannkölluð óveðurslægð sem berst hingað.“

Einar segir að ekki sé hægt að segja til um þróunina fyrr en nær dregur en að þetta sé svona einhver tillaga fremur en spá eins og hann orðar það. Hann segir að um helgina verði hægt að sjá betur hvað verður úr.

„Það er mikil óvissa. Stundum eiga líkönin það til að koma með trúverðuga lægð langt fram í tímann en svo kannski dettur hún út og dúkkar svo aftur upp í breyttri mynd. Þetta er veðurstaða við Atlantshafið sem þarf að fylgjast vel með og hvað hún getur af sér.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur gerir veðrinu reglulega skil á veðurvefnum Bliku.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur gerir veðrinu reglulega skil á veðurvefnum Bliku. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka