Neita að gefa upplýsingar um neyðarvegabréf

Sýnishorn af íslensku vegabréfi. Reglugerðinni var breytt á síðasta ári.
Sýnishorn af íslensku vegabréfi. Reglugerðinni var breytt á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að þeirri niðurstöðu að utanríkisráðuneytinu hafi verið rétt að synja mbl.is um aðgang að upplýsingum um útgáfu neyðarvegabréfa.

Með breytingu á reglugerð, í lok apríl á síðasta ári, var heimiluð útgáfa vegabréfa vegna sérstakra aðstæðna og að beiðni utanríkisráðherra, til útlendinga sem ekki eru löglega búsettir á Íslandi.

Einnig var utanríkisráðherra veitt heimild til að fela sendiskrifstofum Íslands og kjörræðismönnum að gefa út neyðarvegabréf vegna sérstakra aðstæðna og með samþykki Útlendingastofnunar. Útgáfa vegabréfa á þessum grundvelli felur ekki í sér veitingu ríkisborgararéttar. 

Reglugerðarbreytingin vakti athygli í kjölfar þess að fregnir bárust af því að tónlistarkonan María V. Aljókhína, sem er í rússnesku hljómsveitinni og andófshópnum Pussy Riot, flúði frá Rússlandi til Íslands. 

Í frétta­flutn­ingi af mál­inu kom fram að ónefnt land hefði gefið út ferðaárit­un fyr­ir Aljók­hínu að beiðni vin­ar henn­ar, lista­manns­ins Ragn­ars Kjart­ans­son­ar.

Ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur synjaði beiðni mbl.is um upplýsingar.
Ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur synjaði beiðni mbl.is um upplýsingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæti leitt til óheppilegra getgátna

Vildi blaðamaður mbl.is fá upplýsingar um það hvort þessi heimild hefði verið nýtt, og þá hversu oft, hvers vegna og hve langur gildistími þeirra vegabréfa væri. Var beiðni þess efnis send ráðuneytinu þann 12. maí. 

Utanríkisráðuneytið synjaði þessari upplýsingabeiðni á grundvelli þess annars vegar að gögnin vörðuðu einkamálefni einstaklinga, sem sanngjarnt sé að leynt fari, og hins vegar að mikilvægir almannahagsmunir væru í húfi. 

Taldi ráðuneytið að afhending umbeðinna upplýsinga, þótt einar og sér lytu þær að tölfræði, gæti sökum umfangs, tímasetningar og samhengis leitt til „óheppilegra getgátna á opinberum vettvangi um útgáfu vegabréfa til útlendinga af sérstökum ástæðum, meðal annars sökum þess að stríð geisar nú í Austur-Evrópu“.

Hafa yrði í huga að einstaklingar sem fengju útgefin vegabréf sem þessi kynnu að vera í afar viðkvæmri stöðu gagnvart stjórnvöldum í heimalandi sínu, jafnvel þannig að lífi og heilsu þeirra væri ógnað. 

Afhending upplýsinganna gæti þannig haft skaðleg áhrif á tengsl Íslands við önnur ríki, sem myndi stofna hagsmunum íslenska ríkisins í hættu.

Þá væri ekki hægt að útiloka að umfjöllun um útgáfu íslenskra vegabréfa á þessum grundvelli gætu haft „neikvæð áhrif á tiltrú og trúverðuleika íslenskra vegabréfa.“

Traust til íslenskra stjórnvalda gæti glatast

Úrskurðarnefnd upplýsingamála átti fund með utanríkisráðuneytinu í janúar 2023, en málið var kært til úrskurðarnefndarinnar þann 9. júní 2022, þar sem nefndin taldi þörf á viðbótarskýringum um tiltekin atriði í rökstuðningi ráðuneytisins.

Þá fór nefndin einnig yfir þau gögn sem innihalda þær upplýsingar sem blaðamaður óskaði eftir. 

Var það niðurstaða nefndarinnar að gögnin væru ótvírætt undanþegin upplýsingarétti almennings. Taldi nefndin ljóst að ef gögnin yrðu afhent kynni það að leiða til þess að traust erlendra stjórnvalda á íslenskum stjórnvöldum glataðist og þannig yrði mikilvægum almannahagsmunum raskað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka