Ófærðin mest í efri byggðum

Unnið er að snjómokstri um alla borgina.
Unnið er að snjómokstri um alla borgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt kapp er lagt á að koma öllum götum borgarinnar í ferðahæft ástand. Einhverjar tengibrautir og húsagötur eru ófærar sem stendur en stofnleiðirnar eru fínar, að sögn Eiðs Fannars Erlendssonar, yfirmanns vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar.

Hann bendir á að mikið hafi snjóað og moksturinn taki því sinn tíma. Níu tæki á vegum borgarinnar sinni mokstri á stofn- og tengibrautum, auk þess sem fimm gröfur séu að störfum.

Eiður Fannar segir mestu ófærðina vera í efri byggðum og víða eigi eftir að moka. Nefnir hann sem dæmi norðanverðan Grafarvog, Úlfarsárdal, Grafarholt og efri hluta Árbæjarins. Einnig er þungfært í Breiðholti.

Frá snjómokstri í borginni í gær.
Frá snjómokstri í borginni í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjómoksturinn byrjaði seint í gærkvöldi þegar bílar sátu fastir á Víkurvegi og Lambhagavegi í Grafarvogi. Unnið var að því að losa þá og opna þær leiðir. Sú vinna stóð fram eftir nóttu þangað til veðrið gekk niður. Eftir það fóru vélarnar í að ryðja víðar í hverfinu og annars staðar í borginni.

Spurður segist Eiður Fannar ekki geta nefnt hvenær hann telur að snjómokstrinum ljúki. „Í það minnsta leggjum við kapp á að gera göturnar færar. Þær verða kannski ekki fullbreiðar en samt þannig að fólk komist. Við sjáum svo til hvernig framhaldið þróast með rigninguna og annað,“ segir hann en útlit er fyrir rigningu á fimmtudaginn.

Uppfært kl. 11.13:

Reykjavíkurborg vill árétta að starfsfólk vetrarþjónustu borgarinnar hóf vinnu sína um klukkan 15 í gærdag og hefur verið að síðan þá. Ákveðnir vegir eru til vandræða er varðar snjósöfnun, þar á meðal Víkurvegur, og eru þeir vaktaðir eftir fremsta megni.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka