Samtök Atvinnulífsins ætla að höfða mál gegn Eflingu fyrir Félagsdómi. Þetta staðfestir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við mbl.is.
Eins og kunnugt er samþykkti starfsfólk Íslandshótela sem starfar undir kjarasamningi Eflingar tillögu um boðun verkfalls. Niðurstaðan var kunngjörð í gær en atkvæðagreiðslan stóð yfir frá hádegi sl. þriðjudags, til klukkan 20 í gærkvöld.
Að sögn Halldórs telja SA boðun verkfallsins ólögmæta. Gerir hann ráð fyrir að málið verði dómtekið fyrir helgi. Hann vildi þó ekki tjá sig nánar um stefnuna en hún verður gerð opinber síðar í dag.
Á vef Eflingar segir að 189 hafi tekið þátt af 287 sem voru á kjörskrá og kjörsókn því 66 prósent. 124 greiddu atkvæði með verkfalli, 58 greiddu atkvæði gegn og 7 sem óskuðu að taka ekki afstöðu.