Urður Egilsdóttir
Nýjasta verkfallsboðun Eflingar tekur til um 570 félagsmanna. Þetta staðfestir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is.
Verkfallsboðunin nær til félagsmanna sem starfa hjá hótelum Reykjavík Edition og Berjaya (áður Icelandair hotels) og hjá Samskip, Olíudreifingu og Skeljungi.
Sólveig segir að um 500 félagsmenn starfi á hótelunum og 70 félagsmenn hjá Samskip, Olíudreifingu og Skeljungi.
Verði boðun verkfallanna samþykkt hefst vinnustöðvun á hádegi 15. febrúar og er hún ótímabundin.
Í gær samþykktu félagsmenn sem starfa á Íslandshótelum tillögu um verkfall og munu því 287 starfsmenn hefja verkfall að öllu óbreyttu eftir viku, þann 7. febrúar.
Sólveig segist vona að verkföllin og verkfallsboðanirnar verði til þess að Samtök atvinnulífsins (SA) bjóði Eflingu upp á betri kjarasamninga.
SA tilkynnti í morgun að samtökin munu höfða mál gegn Eflingu fyrir Félagsdómi. SA telur boðun verkfallsins á Íslandshótelum ólögmæta.