Mikill áhugi á Hólmsheiði

Hólmsheiði.
Hólmsheiði. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Verulegur áhugi virðist vera á uppbyggingu á athafnasvæði á Hólmsheiði en Reykjavíkurborg auglýsti nýlega eftir fyrirtækjum sem eru áhugasöm um að staðsetja sig á 87 hektara svæði á Hólmsheiði, sem gera á byggingarhæft í áföngum.

Alls bárust 56 erindi frá ýmsum fyrirtækjum sem lýstu áhuga sínum. Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri Athafnaborgarinnar á skrifstofu borgarstjóra, segir að um sé að ræða markaðskönnun til að átta sig á hvers konar fyrirtæki hafa áhuga á því að staðsetja sig á Hólmheiði, hversu stórar lóðir þau þurfa og hversu mikið þau gætu hugsað sér að byggja. Taka muni einhvern tíma að fara yfir öll erindin sem bárust.

Verði byggingarhæfar 2024

Heildarþörfin á svæðinu er 978.000 fermetrar lands undir atvinnuhúsnæði á 239.000 fm. „Þetta voru bæði stór og lítil fyrirtæki og eins þurftu þau stórar og litlar lóðir í bland. Þessi gögn verða nýtt við gerð á deiliskipulagi á Hólmsheiði til þess að tryggja að það sé í takt við þarfir markaðarins. Næstu skref eru að það verður unnið deiliskipulag fyrir svæðið og gæti það tekið gildi í lok ársins 2023. Í kjölfarið verða fyrstu lóðirnar gerðar byggingarhæfar og gæti það verið seinni part ársins 2024,“ segir hann.

Í auglýsingu borgarinnar kemur fram að í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem athafnasvæði undir landfreka starfsemi svo sem léttan iðnað, gagnaver, matvælaiðnað, vörugeymslur og umboðsverslanir og aðra umhverfisvæna iðnaðarstarfsemi. Borgin áskilji sér rétt til að ákveða hvort hugmyndir sem berast verði kveikja að samstarfi eða samningum um lóðir á svæðinu. „Mögulegir samningar um lóðir á svæðinu verða gerðir á markaðsforsendum. Tekið verður tillit til rekstrarsögu og fjárfestingargetu við mat á vænleika verkefna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert